Hagnaður Íslandsbanka eftir skatta nam 5,4 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi 2015 samanborið við 8,3 milljarða á sama tímabili 2014. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum vegna uppgjör fyrsta árfsjórðungs hans. Þar segir að einskiptisliðir hafi verið umfangsmeiri í afkomu síðasta árs sem skýrir samdráttinn milli ára.

Arðsemi eigin fjár eftir skatta var 11,8 á fjórðungnum samanborið við 19,3% á sama tímabili 2014. Eiginfjárhlutfallið var 28,4% samanborið við 29,6% árið áður og voru hreinar vaxtatekjur 6,2 milljarðar króna á fjórðungnum sem er lækkun um 6,8% á milli fjórðunga. Vaxtamunur var 2,7% á fjórðungnum en hann var 3% á sama tíma í fyrra.

Í tilkynningunni er haft eftir Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka, að afkoman hafi verið umfram væntingar. „Kostnaður heldur áfram að lækka enda mikilvægt að styrkja enn frekar arðsemi af reglulegri starfsemi. Góður árangur í rekstri bankans hefur skilað því að lánshæfismatsfyrirtækið Fitch Ratings mat bankann, fyrstan hér á landi frá árinu 2008, í fjárfestingarflokk með stöðugum horfum.  Sú niðurstaða er til þess fallin að skila bankanum hagstæðari kjörum í komandi skuldabréfaútgáfum bankans.

Íslensk fyrirtæki eru nú í auknum mæli að nýta sér áhættustýringarvörur til að lágmarka rekstraráhættu og skapa sér fyrirsjáanlegt fjárhagslegt umhverfi. Þetta sýnir sig í auknum vexti í sölu áhættustýringarvara hjá Mörkuðum, sem er enn eitt batamerkið á fjármálamarkaðinum.

Aukning í nýjum húsnæðislánum var  tæp 60% á fjórðungnum miðað við sama tímabil í fyrra. Við sjáum vaxandi eftirspurn eftir fyrstukaupalánum  hjá viðskiptavinum sem eru að festa kaup á sinni fyrstu íbúð.

Þjónusta í útibúum hefur breyst nokkuð síðustu ár en viðskiptavinir leita í auknum mæli eftir ráðgjöf en framkvæma einfaldari færslur með öðrum dreifileiðum, svo sem netbanka og appi. Nýtt útibú sem opnað var í vikunni mætir þessum breyttu áherslum en þar voru útibúin í Lækjargötu og Eiðistorgi  sameinuð í eitt útibú á Granda. Það er einnig í samræmi við áætlanir bankans um hagræðingu um leið og áhersla er lögð á að veita viðskiptavinum okkar framúrskarandi þjónustu sem tekur mið að þörfum þeirra.“