Íslandsbanki segir í yfirlýsingu, sem sent var fjömiðlum í dag í kjölfar fréttar Viðskiptablaðsins um lán Glitnis til barna, að ekki standi til að innheimta skuldir barnanna vegna kaupa á stofnfjárhlutum í Byr.

Eins og greint er frá í Viðskiptablaðinu í dag lánaði Glitnir tugi milljóna króna til barna þegar stofnfé í Byr var aukið um 30 milljarða í sjóðnum seinni part ársins 2007. Glitnir fjármagnaði stofnfjáraukninguna að stórum hluta.

Íslandsbanki segist í yfirlýsingunni harma málið og ákveðið sé að ganga ekki að börnunum sem fengu lán. Er það gert þar sem ljóst þykir að lánin hafi verið ólögleg þar sem samþykki yfirlögráðanda, þ.e. sýslumanns, fyrir lánveitingunum lá ekki fyrir.

Yfirlýsing Íslandsbanka er eftirfarandi:

„Vegna umfjöllunar í Viðskiptablaðinu um lánveitingar Glitnis banka vegna stofnfjáraukningar Byrs sparisjóðs vill Íslandsbanki taka eftirfarandi fram:

Þau lán sem Glitnir banki hf. veitti vegna stofnfjáraukningar í Byr sparisjóði hf. síðla árs 2007 fluttust yfir til Íslandsbanka með neyðarlögunum sem sett voru í kjölfar bankahrunsins í október í fyrra.

Þegar stofnfjáraukningin í Byr fór fram árið 2007 óskuðu nokkrir stofnfjáreigendur eftir því að Glitnir banki hf. fjármagnaði stofnfjáraukningu fyrir börn sín. Þau börn sem fengu lán hjá Glitni banka hf. voru þá þegar stofnfjáraðilar í Byr og nutu forgangsréttar til að skrá sig fyrir hlutum í útboðinu.

Í öllum tilvikum áttu foreldrar eða forráðamenn umræddra barna frumkvæði að lántökunni og komu fram fyrir hönd þeirra gagnvart Glitni banka hf. Frá stofnun nýja bankans hafa umræddar lánveitingar Glitnis banka hf. verið til skoðunar.

Við þá athugun hefur komið í ljós að ekki lá fyrir samþykki yfirlögráðanda, þ.e.a.s. sýslumanns, til lántöku hinna ófjárráða barna. Þar sem samþykki yfirlögráðanda skortir teljast umræddir lánsamningar ógildir og mun Íslandsbanki því ekki innheimta skuldina hjá viðkomandi lántökum. Íslandsbanki harmar þetta mál í alla staði."