Íslandsbanki mælir ekki með kaupum í neinu skráðu félagi í Kauphöll Íslands. Bankinn gerir verðmat á stærri félögum í Kauphöllinni með sjóðstreymisgreiningu og útfrá því mælir hann ekki með því að fjárfestar kaupi í neinu félagi á markaðnum til að eiga í langs tíma. Þetta þarf í sjálfu sér ekki að koma á óvart því að markaðurinn hefur hækkað mun hraðar en undirliggjandi verðmæti fyrirtækjanna á síðustu árum. Afleiðingin af því er sú að þeim fyrirtækjum sem bankarnir mæla sérstaklega með kaupum í hefur smám saman fækkað og nú er svo komið að Íslandsbanki mælir ekki með kaupum í neinu fyrirtæki. Úrvalsvísitalan náði í þessari viku að slá fyrra hámark sitt sem hún náði á síðasta ári þegar hún fór í 3947 stig.

Þrátt fyrir Íslandsbanki mæli ekki með kaupum í neinu félagi segist hann telja skynsamlegt að yfirvoga KB banka í vel dreifðum eignasöfnum en það er eina fyrirtækið sem Íslandsbanki mælir með yfirvogun í. Yfirvogun byggist á því að bankinn telji slíkt félag eiga góða möguleika á að hækka meira en markaðurinn til skamms tíma. Markaðsvogun bendir til þess að ávöxtun til skamms tíma verði sú sama og markaðurinn muni skila en yfirvogun er síðan ávöxtun sem er verri en markaðurinn gefur.

Mikill gangur hefur verið á hlutabréfamarkaði það sem af er ári og hefur vísitalan hækkað um 18,5% sem er mun meiri hækkun en Íslandsbanki spáði að yrði hækkunin yfir árið.

Útfrá spá um afkomu félaganna í ár, verðkennitölum sem byggja á spánni, verðmötum bankans á fyrirtækjunum og almennri stöðu á hlutabréfamarkaðnum dregur greiningardeild bankans þá ályktun að búast megi við því að markaðurinn haldi áfram að hækka. Hins vegar sér bankinn minna svigrúm til hækkana en í ársbyrjun. Bankinn ætlar að hækkun Úrvalsvísitölunnar á árinu verði nálægt 25 til 30%. Miðað við úrvalsvísitöluna eins og hún var í gær gerir bankinn því einungis ráð fyrir 5,5% til 9,7% hækkun til næstu áramóta.