Fjármögnun Íslandsbanka og Nýja Kaupþings var samþykkt á hluthafafundum bankanna í dag. Eigið fé Íslandsbanka verður 65 milljarðar króna og Nýja Kaupþings 72 milljarðar króna, sem lagt er fram í formi ríkiskuldabréfa. Þetta tryggir báðum bönkum 12% eiginfjárhlutfall, að því er segir í fréttatilkynningu frá fjármálaráðuneytinu. Þar segir að þetta sé í samræmi við fyrirætlanir sem greint hafi verið frá 20. júlí sl. og uppgjörssamninga ríkisstjórnarinnar við skilanefndir Glitnis og Kaupþings sem nú sé lögð lokahönd á. Samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu er gert ráð fyrir að skrifað verði undir þá í næstu viku.

Óskað eftir fresti vegna Nýja Landsbankans

Í tilkynningunni segir að hvað Nýja Landsbankann áhræri þá hafi ríkisstjórnin og skilanefnd Landsbankans farið þess á leit við Fjármálaeftirlitið að fá lengri tíma til þess að ná endanlegri niðurstöðu um endurfjármögnun og greiðslur fyrir eignir sem færðar hafi verið úr gamla Landsbankanum yfir í þann nýja. Fomlegar viðræður hafi gengið vel.

Í tilkynningunni er haft eftir Steingrími J. Sigfússyni Fjármálaráðherra að með þessu hafi verið stigið mikilvægt skref til endurreisnar íslenska bankakerfisins. Gert sé ráð fyrir að ljúka samningaviðræðum vegna Landsbankans fljótlega.

Frétt uppfærð 17:42.