Íslandsbanki hefur selt 0,6% af hlutafjáreign sinni í Icelandair Group, alls um 30 milljón hluti.

Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar. Ekki kemur fram á hvaða gengi hlutirnir voru seldir.

Íslandsbanki er sem fyrr stærsti einstaki hluthafinn í Icelandair Group, nú með 20,33% hlut. Fyrir átti félagið 21,04. Íslandsbanki var áður næst stærsti hluthafinn, þangað til Framtakssjóður Íslands lækkaði sinn hlut úr 29% í 10% með sölu á 10 prósenta hlut undir lok síðasta árs.

Fram kemur að með sölunni á hlutum Íslandsbanka fer eignarhlutur í fjárfestingabók bankans í Icelandair Group í 19,99% og félagið ekki lengur fært sem hlutdeildarfélag í reikningum bankans. Þannig eru 0,34% í veltubókum bankans sem undanskilin eru flöggunarskyldu samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti.