Efnahagsreikningur Íslandsbanka dróst saman um 2,4% á fyrstu þremur mánuðum ársins - nokkuð sem við höfum ekki átt að venjast af stórum bönkum á undanförnum árum.

Heildareignir námu tæpum 700 milljörðum króna í lok mars samanborið við 717 milljarða í árslok 2009. Íslandsbanki skilaði tæplega 3,6 milljarða króna hagnaði á fyrstu þremur mánuðum ársins, eins og kom fram í fjölmiðlum í gær.

Mestu munar á eignahliðinni um 30% samdrátt handbærs fjár og innistæðna hjá öðrum fjármálafyrirtækjum. Vó þar þyngst mikill samdráttur innstæðubréfa hjá Seðlabankanum. Einnig minnkaði útlánasafn bankans um rúma tíu milljarða króna og nam 479 milljörðum króna, eða 68% af heildarniðurstöðu efnahags.

Á skuldahliðinni drógust innlán frá einstaklingum saman um 3,6% eða um rúma tólf milljarða. Voru þau um 327 milljarðar í lok ársfjórðungsins. Það voru eingöngu óbundin innlán sem lækkuðu hjá bankanum og nam samdrátturinn 8% frá árslokum 2009. Voru þau 188 milljarðar í lok mars. Annars var hlutfall heildarinnlána af heildarútlánum var um 82%.

15% arðsemi eiginfjár

Eins og kom fram í uppgjörum stóru viðskiptabankanna á síðasta ári var vaxtamunurinn langhæstur hjá Íslandsbanka og helst enn þá hár. Vaxtamunur af meðalstöðu heildareigna var 5,9% á fyrstu þremur mánuðum ársins.

Arðsemi eiginfjár, sem oft er litið til þegar bankar eru bornir saman, var 15% á ársgrundvelli en til samanburðar var arðsemi bankans 30% fyrir allt síðasta ár.