Íslandsbanki hf. sölutryggði í liðinni viku 4 ma.kr. skuldabréfaútboð fyrir Aker Seafoods. Markaðsviðskipti Íslandsbanka luku í gær sölu bréfanna til nær 20 íslenskra stofnanafjárfesta. Með skiptasamningi við Íslandsbanka fær útgefandinn til 5 ára 400 milljónir norskra króna. Skuldabréfaflokkurinn er verðtryggður og verður skráður í Kauphöll Íslands. Hlutabréf Aker Seafoods voru nýverið skráð í norsku kauphöllinni.

Aker Seafoods hefur samið við Íslandsbanka og DnB NOR um endurfjármögnun á samstæðunni. Samningurinn miðar við lántöku í heildina upp á 1,3 milljarða norskra króna. Auk skuldabréfaútboðsins að jafngildi 400 milljónir norskra króna mun DnB NOR veita Aker Seafoods veðlán upp á 800 milljónir norskra króna til 10 ára. Aker Seafood gerir einnig samning um ábyrgðar- og rekstrarlán frá DnB NOR upp á 100 milljónir norskra króna.

Aker Seafoods ASA varð til við sameiningu Norway Seafoods, West Fish-Aarsæther og Nordic Sea Holding. Aker Seafoods ASA er stærsta sjávarútvegsfyrirtæki í Evrópu í veiðum, vinnslu og sölu á hvítfiski. Fyrirtækið hefur starfsemi í Noregi, Danmörku, Bretlandi og í Bandaríkjunum en heildarvelta eininganna sem nú mynda félagið var rúmlega 25 milljarðar íslenskra króna á árinu 2004 og þar starfa um 1.350 starfsmenn.

Frank Reite, framkvæmdastjóri starfsemi Íslandsbanka í Noregi segir samninginn jákvætt skref fyrir Íslandsbanka. "Heimamarkaður Íslandsbanka er í Noregi og á Íslandi. Við erum að opna nýjan markað fyrir viðskiptavini okkar sem skapar ný tækifæri fyrir þá jafnt í Noregi sem og á Íslandi."

Finnur Reyr Stefánsson, framkvæmdastjóri Markaðsviðskipta Íslandsbanka: ?Fjárfestar tóku nýjum útgefanda á íslenska markaðnum vel enda vel kunnugir sjávarútvegi. Með því að bjóða fjárfestum bréfin í verðtryggðum krónum sem skuldarinn breytir með skiptasamningi í norskar, var þörfum bæði fjárfesta og útgefandans mætt".