Greiningardeild Íslandsbanka reiknar með að Seðlabanki Íslands hækki stýrivexti um 25 punkta í 10,75%.

Greiningardeildin telur að frekari hækkana sé von og að um mitt ár verði stýrivextirnir orðnir 11,5%. Greiningardeildin vekur athygli á því að það fyrirkomulag sem Seðlabankinn hefur tekið upp með vaxtartilkynningar sínar sé óheppilegt þar sem markaðir eru látnir bíða í tvær klukkustundir frá því að vaxtaákvörðun sé tilkynnt klukkan níu um morgunin og þar til rökstuðningur bankans fyrir ákvörðuninni sé birtur rúmum tveimur klukkutímum síðar. Þetta skapi óþarfa óvissu.

Íslandsbanki telur að heppilegra væri ef Seðlabankinn myndi tilkynna vaxtaákvörðun eftir lokun innlendra markaða og gefa þar með markaðinum færi á að móttaka skilaboð bankans áður en viðskipti eru stunduð á grundvelli þeirra.