Íslandsbanki afhenti í dag styrki að fjárháð 35 milljónum króna úr Frumkvöðlasjóði sínum til tólf verkefna. Hver styrkur nemur á bilinu 1-4 milljónum króna en sjóðnum bárust tæplega 130 umsóknir um styrki.

Alls hafa verið veittar um 125 milljónir króna úr Frumkvöðlasjóðnum, sem á að hvetja til nýsköpunar og þróunar, á síðastliðnum tveimur árum. Við úthlutun styrkja er horft til frumkvöðlaverkefna sem stuðla að þeim fjórum heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem Íslandsbanki hefur ákveðið að starfa eftir. Þau eru menntun fyrir alla, jafnrétti kynjanna, nýsköpun og uppbygging og aðgerðir í loftslagsmálum.

Þau verkefni sem hljóta styrki úr Frumkvöðlasjóði Íslandsbanka í ár eru:

Esports Coaching Academy (ECA)
Esports Coaching Academy er hugbúnaðarlausn sem auðveldar aðilum að hefja skipulagt barnastarf í rafíþróttum með áherslu á líkamlegt og andlegt heilbrigði.

Bravo Earth
Markmið verkefnisins er að auðvelda fyrirtækjum að meta, bregðast við og stjórna loftlagstengdri áhættu og tækifærum í samræmi við leiðbeiningar TCFD. Hönnuð verður ný eining og verkferli í vefkerfið Bravo Earth sem inniheldur matsform fyrir áhættu- og tækifærisgreiningu og leiðbeiningar fyrir innleiðingu áferlum og skýrslugerð.

MAGNEA
MAGNEA – made in Reykjavík, er fatalína eftir Magneu Einarsdóttur sem samanstendur af yfirhöfnum úr íslenskri ull og var nýlega tilnefnd til Hönnunarverðlauna Íslands. Sérstaða verkefnisins er sú að hugvit, hráefni og framleiðsla er öll uppruninn á höfuðborgarsvæðinu. Í framleiðsluferlinu er lögð áhersla á atriði sem stuðla að aukinni sjálfbærni í tískuiðnaði á borð við rekjanleika, gagnsæi og staðbundna framleiðslu.

Orb
Orb gerir hugbúnað sem notar tölvusjón í síma, fjargögn og gervigreind til að mæla skóga og kolefnisbindingu þeirra. Hugbúnaðurinn auðveldar skráningu nýskógræktarverkefna og reglubundnar úttektir. Þannig geta landeigendur tekið þátt í baráttunni við loftslagsvána og fyrirtæki keypt vottanlegar kolefniseiningar með 100% rekjanleika.

HEIMA
HEIMA er smáforrit sem sér um skipulag og hugræna byrði heimilisins fyrir fjölskyldur með heimsmarkmið 5.4 að leiðarljósi. Verkefnið felst í því að þróa spálíkan HEIMA sem býr til og heldur við verkefnayfirliti fyrir hverja fjölskyldu sem er sérsniðið að þörfum hennar. Spálíkanið gerir HEIMA að einstakri tæknilausn á heimsvísu.

Hreppamjólk
Hugmyndin byggist á því að gerilsneyða og selja ófitusprengda kúamjólk í lausu máli beint frá býli, á sjálfsafgreiðslustöð við kúabúið og í sjálfsafgreiðslustöðvum í stórmörkuðum á höfuðborgarsvæðinu. Við hlið sjálfsalans verður sjálfsali með fjölnota glerflöskum, þetta er því umhverfisvænni aðferð en meðhöndlun á hefðbundinni mjólk.

Mannflóran
Hlaðvarpsþættirnir Mannflóran, í umsjón Chanel Bjarkar, verður vettvangur þar sem fólk getur sótt fræðslu um allskyns málefni tengd fjölmenningu og kynnst reynsluheimi fólks af erlendum uppruna jafnt og skoðunum hvítra innlendra Íslendinga á þessum málum.

Snerpa Power
Orkuskiptin auka vægi rafmagns sem eldsneytis í samfélaginu. Liður í að tryggja samkeppnishæfni raforkumarkaðar er að virkja raforkunotendur. Verkefnið snýr að þróun hugbúnaðar sem nýtir gagnastrauma til og frá raforkunotendum og gerir þeim kleift að lækka raforkukostnað. Áhrifin eru bætt nýting orkuauðlinda, aukið afhendingaröryggi rafmagns og aukin samkeppnishæfni íslensks raforkumarkaðar.

Plastplan
Verkefninu Framhaldslífi er ætlað að auka úrvinnslu á endurunnu plasti með áherslu á afurðasköpun og tilheyrandi verðmætasköpun og umhverfis ávinningi. Frá stofnun Plastplans ehf. hefur fyrirtækið lagt áherslu á endurvinnslu og hönnun í tengslum við endurunnið plast og mun Framhaldslíf gegna veigamiklu hlutverki í að auka afköst endurvinnslunnar og miðla möguleikum á nýtingu efnisins bæði innan-og utanlands.

Pure North Recycling
Verkefnið Bakki í Borð snýr að því breyta plastúrgangi í verðmæti. Stór hluti plasts endar í dag urðun eða út í umhverfinu með tilheyrandi mengun og sóun verðmæta. Markmið verkefnisins er að búa til og hanna nýja farvegi fyrir þetta plast og gefa því þar með framhaldslíf með öðrum tilgangi, hvort sem það sé girðingastaur, garðbekkur eða hellusteinn. Með þessu er verið að búa til hringrás innanlands fyrir hráefni, lágmarka sóun auðlinda og minnka losun gróðurhúsalofttegunda.

Fab Lab Ísafjörður
Fab Lab Ísafjörður ætlar að smíða plötupressu eftir open-source teikningum frá Precious Plastic. Pressan verður notuð til að framleiða plastplötur úr gömlum fiskinetum sem falla til á Ísafirði. Plöturnar geta gestir Fab Lab síðan notað til að smíða allt mögulegt.

Icelandic Hemp Textiles
Markmiðið með verkefninu er að hanna staðlað vinnsluferli við feygingu á hampi og þróa búnað til að vatnsfeygja hamp í því skyni að hámarka gæði trefjanna með sem minnstum kostnaði. Hamptrefjarnar eru svo notaðar í textílvinnslu. Iðnaðarhampur er gríðarlega umhverfisvæn planta sem hægt er gjörnýta og minnka umhverfisspor framtíðarinnar.

Stjórn Frumkvöðlasjóðs Íslandsbanka var óbreytt á milli ára. Hana skipa Ari Kristinn Jónsson, fv. rektor Háskólans í Reykjavík og núverandi forstjóri AwareGO, Hrund Gunnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Festu, og Una Steinsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptabankasviðs Íslandsbanka.

Una Steinsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptabankasviðs Íslandsbanka:

„Frumkvöðlasjóður Íslandsbanka fær á hverju ári vel yfir 100 umsóknir um styrki, sem er til marks um þá miklu og mikilvægu grósku sem á sér stað í nýsköpunarumhverfinu hér á landi. Það er ánægjulegt að sjá að meginþorri þessara verkefna felur í sér leiðir til að bæta samfélagið  um land allt með margvíslegum hætti.  Þeir styrkir sem Frumkvöðlasjóðurinn veitir í ár endurspegla ekki aðeins áherslur Íslandsbanka og þau fjögur heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem Íslandsbanki hefur ákveðið að starfa eftir, heldur einnig þær fjölbreyttu lausnir og hugmyndir sem leynast víða í íslensku hugviti. Það er mikilvægt að geta lagt sitt af mörkum til að styðja við þær hugmyndir og vera þannig Hreyfiafl til góðra verka.“

Úthlutun Frumkvöðlasjóður ISB
Úthlutun Frumkvöðlasjóður ISB
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Frá úthlutun Frumkvöðlasjóðs Íslandsbanka í dag.