Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,7% í 1,7 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Mesta veltan var með hlutabréf Íslandsbanka sem lækkuðu um 0,85% í um 230 milljóna viðskiptum.

Gengi Íslandsbanka stendur nú í 116,6 krónum á hlut. Þetta er í annað sinn frá útboði Bankasýslu ríkisins á 22,5% hlut í bankanum í mars 2022 sem dagslokagengi bankans fer undir 117 krónu útboðsgengið.

Hlutabréfaverð Skeljar fjárfestingarfélags lækkaði um 2,94% í 75 milljón króna viðskiptum í dag og stendur nú í 16,5 krónum. Gengi Skeljar hefur hækkað um 5% frá áramótum.

Origo lækkaði um tæplega 2% í óverulegum viðskiptum. Þá lækkaði Síminn um 1,9% og Icelandair um 1,3% í 55 milljóna króna viðskiptum.

17 félög lækkuðu á aðalmarkaði í dag, en fjögur félög hækkuðu. Þeirra á meðal var Vís, sem hækkaði um rúmlega eitt prósentustig í 212 milljóna króna viðskiptum.

Á First North hækkaði gengi bréfa þriggja félaga. Kaldalón hækkaði um 2%, Hampiðjan um 1,55% og Play um 0,77%.