*

laugardagur, 30. maí 2020
Innlent 24. september 2019 14:35

Íslandspóstur selur Frakt

Forstjóri Íslandspósts segir verkefnið „barn síns tíma“. Það sama megi segja um mörg önnur dótturfélög félagsins.

Ritstjórn
Birgir Jónsson, forstjóri Íslandspósts, segir félagið í endurskipulagningaferli.
Haraldur Guðjónsson

Í fréttatilkynningu frá Íslandspósti kemur fram að félagið hafi selt allan sinn hlut í Frakt flutningsmiðlun ehf., pósturinn hefur átt 62,5% í fyrirtækinu frá því í lok árs 2010. Kaupandi er Ora ehf. sem er í eigu Arnars Bjarnasonar framkvæmdarstjóra Fraktar en hann hefur átt 30% hlut í félaginu á móti Póstinum. Kaupverðið telst trúnaðarmál að beiðni kaupenda en að eigin sögn hefur salan óverleg áhrif á fjárhag og rekstur Íslandspósts.

Frakt hóf rekstur í maí 2010 og starfar á sviði flutningsmiðlunar og býður inn- og útflytjendum flutning og aðra tengda þjónustu til og frá landinu. Fyrirtækið velti rúmlega 750 milljónum króna árið 2018 og starfsmenn fyrirtækisins eru nú 13 talsins.

Birgir Jónsson, forstjóri Íslandspósts, segir að í því endurskipulagningaferli sem sé í gangi hjá félaginu samræmist rekstur Frakt ekki kjarnastarfsemi Íslandspósts, því sé skynsamlegast að selja fyrirtækið. Að auki segir hann að félagið sé barn síns tíma og það sama mætti segja um nokkur önnur dótturfélög Íslandspósts enda séu þau flest í söluferli.