Á árinu 2007 var 7.997 ökutækjum skilað til úrvinnslu og greitt út skilagjald af þeim, árið 2006 voru þau 8.618 og árið 2005 var 7.477 ökutækjum skilað. Þetta gera 24.092 ökutæki á síðustu þremur árum eða um 8.030 ökutæki að meðaltali á ári. Íslendingar afskrá því tæplega fjögur ökutæki til úrvinnslu á hverri klukkustund miðað við átta stunda vinnudag fimm daga vikunnar.

Ökutæki sem hafa lokið hlutverki sínu fara nú að langstærstum hluta til úrvinnslu hér á landi og síðan til frekari endurnýtingar og endurvinnslu erlendis. Sveitarfélög og þjónustuaðilar Úrvinnslusjóðs taka nú við úrsérgengnum ökutækjum á um 50 stöðum á landinu. Komi eigandi ökutækis því til söfnunar- eða móttökustöðvar fær hann útgefið skilavottorð sem staðfestingu á að ökutækið sé komið til úrvinnslu. Eigandinn fer síðan með skilavottorðið og afskráir ökutækið til úrvinnslu á næstu skoðunarstöð eða hjá Umferðarstofu. Hafi eigandinn greitt úrvinnslugjald af ökutækinu í það minnsta einu sinni á hann rétt á 15.000 króna skilagjaldi en úrvinnslugjaldið er innheimt með bifreiðagjöldum. Skilagjald fær eigandinn greitt annað hvort hjá skoðunarstöð eða Umferðarstofu, samdægurs eða daginn eftir. Skilagjaldinu er ætlað að standa straum af útlögðum kostnaði eiganda ökutækis við að koma því til úrvinnslu. Ekkert á þannig að standa í vegi fyrir því að úrsérgengnu ökutæki sé skilað til söfnunar- eða móttökustöðvar.

Meðalaldur ökutækja sem fóru í úrvinnslu og greitt var skilagjald af á árinu 2005 var 14,53 ár, 2006 er meðalaldurinn 14,29 ár og árið 2007 13,88 ár. Þannig hafa ökutæki sem skilað var til úrvinnslu á árinu 2007 að jafnaði farið á götuna árið 1994 en samkvæmt upplýsingum frá Umferðarstofu voru nýskráð ný ökutæki það ár 6.710. Af því má álykta að skil ökutækja til úrvinnslu séu orðin nokkuð góð. Ljóst er að ökutækjum sem skilað er til úrvinnslu á eftir að fjölga verulega á næstu árum, þar sem innflutningur hefur aukist mjög á síðustu árum. Sem dæmi má nefna að á síðastliðnu ári voru nýskráð ný ökutæki hjá Umferðarstofu 24.800, á móti 12.511 tíu árum áður, 1997.

Úrvinnslugjald af ökutækjum er nú 700 kr. á ári og innheimt eins og áður segir með bifreiðagjöldum tvisvar á ári, 350 kr. í senn. Úrvinnslugjaldið stendur undir greiðslu 15.000 kr. skilagjalds, auk meðhöndlunar og greiðslu á flutningskostnaði. Sveitarfélag eða þjónustuaðili fær greiddar 750 kr. fyrir útfyllingu á skilavottorði og 3.500 kr. fyrir tæmingu spilliefna og rétta meðhöndlun þeirra fyrir hvert ökutæki. Úrvinnslusjóður greiðir einnig fast gjald fyrir flutning á ökutækjum utan höfuðborgarsvæðisins, annars vegar 4.500 kr. á ökutæki sem er í og undir 100 km fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu og 7.500 kr. vegna ökutækja sem koma lengra að. Aðeins sveitarfélög fá greiddan flutningskostnað og þá af þeim ökutækjum sem koma inn á söfnunarstöðvar þeirra. Að auki greiðir Úrvinnslusjóður skoðunarstöðvum og Umferðarstofu 850 kr. fyrir umsýslu og greiðslu skilagjalds til síðasta eiganda ökutækis. Að meðaltali kostar hvert ökutæki sem skilað er til úrvinnslu og endurnýtingar því um 23.000 kr.