Í tilefni af því að ný kvikmynd Íslandsvinarins Tom Cruise The Edge of Tomorrow kom út um helgina og halaði inn 140 milljónum dala um heimsbyggðina tók fréttasíðan Vulture saman lista um þau lönd sem elskuðu Tom Cruise mest. Samkvæmt úttektinni hafa Íslendingar eytt mestum pening miðað við höfðatölu til að sjá kvikmyndir Tom Cruise.

Þegar tekin var saman eyðsla landa á bíómiða til að sjá kvikmyndir Tom Cruise voru Bandaríkin hæst. En samtals höfðu Ameríkanar eytt yfir 1 milljarði bandaríkjadala eða um 114 milljörðum íslenskra króna í bíómiða á kvikmyndir með Tom Cruise í hlutverki síðan árið 2004.

Hins vegar kom fram í fréttinni að vinsældir Tom Cruise hafa dalið í Bandaríkjunum síðastliðin ár, en hann hefur ekki misst aðdáendur sína í Evrópu. Þetta kemur sérstaklega í ljós þegar eyðsla er miðuð við höfðatölu en þá hafa Íslendingar eytt mest í bíómiða á kvikmyndir með Tom Cruise í hlutverki síðan árið 2004. Samkvæmt úttektinni hefur hver einasti Íslendingar eytt að meðaltali 550 krónum í bíómiða á kvikmyndir Tom Cruise á síðastliðnum 10 árum. Þá höfðu Íslendingar eytt mest til að sjá kvikmyndina War of the Worlds árið 2005. Því fæst ekki annað sagt en Íslendingar elski Tom Cruise mest. En fréttavefurinn leggur einnig til að hann hafi mögulega kynnst öllum persónulega á Íslandi við tökur sínar á Oblivion árið 2012.