Katrín Pétursdóttir hefur verið forstjóri Lýsis frá árinu 1999 en hefur jafnframt verið viðloðandi fyrirtækið frá barnæsku. Afi hennar, Tryggvi Ólafsson, stofnaði fyrirtækið árið 1938 eftir að hafa borist skeyti frá E. C. Wise hjá lyfjafyrirtækinu Upjohn í Michigan í Bandaríkjunum. Í skeytinu örlagaríka var leitast eftir því hvort hann gæti útvegað þorskalýsi.

Í viðtali við Viðskiptablaðið síðastliðinn fimmtudag fór Katrín um víðan völl og ræddi m.a. auglýsingu Lýsis í kringum íslenska knattspyrnulandsliðið. Hún segir að Íslendingar megi vera stoltari, ekki bara af landsliðinu heldur einnig atvinnulífinu.

Auglýsingin ykkar í kringum íslenska landsliðið í knattspyrnu hefur vakið mikla athygli enda gefur hún til kynna að fyrirtækið sé hluti af þjóð­ arsálinni, hvernig kom hún til?

„Já, það er einmitt svona auglýsing sem ég myndi vilja fyrir atvinnulífið. Einhverja jákvæða og góða tengingu. Við eigum að vera stolt yfir því sem við höfum. Við vorum einu sinni öll stolt yfir því að vera Íslendingar og við vorum öll stolt yfir okkur, okkar atvinnulífi, okkar fyrirtækjum og okkar afreksfólki. Við eigum að halda áfram að vera svolítið stolt.“

Viltu meina að það vanti þjóðarstolt í Íslendinga?

„Það er nefnilega spurningin. Það virðist ekki vanta þegar kemur að afreksfólki, þá erum við öll jafn stolt en þegar kemur að atvinnulífinu þá mættum við vera stolt þar líka. Við eigum það fyllilega skilið að hreykja okkur af íslensku atvinnulífi sem er framúrskarandi og það má líka alveg tala meira um þann árangur sem hefur náðst hér síð- an efnahagshrunið dundi yfir. Má ekki segja bara að íslendingar hafi verið duglegir? Kreppan er búin og komið góðæri en eftir situr andlega kreppan. Það má því vel segja að þessi auglýsing hafi ákveðinn undirtón.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .