„Við erum sammála SMÁÍS í þessu máli. En það er eðlilegt af þeirra hálfu að það gangi eitt yfir alla og SMÁÍS nálgist þá sem veita internetþjónustu með sama hætti. En við höfum í sjálfu sér ekki tekið neitt til varna í þessu máli,“ segir Ari Edwald aðspurður um afstöðu hans og 365 miðla í málinu sem SMÁÍS hefur höfðað gegn öllum internetþjónustufyrirtækjum landsins.

Vekur raunar athygli að stefnandi í málinu, Samtök myndréttahafa á Íslandi (SMÁÍS), stefnir með þessu einu af aðildarfélögum sínum, 365 miðlum. Farið er fram á að fyrirtækin loki fyrir aðgang að tilteknum skráardeilisíðum, Deildu.net og Piratebay.

Aðspurður um hvort 365 miðlar gætu ekki tekið það upp hjá sjálfu sér að loka á aðgang notenda að þessum síðum segir Ari svo vera en að eðlilegt sé að láta dómstóla skera úr um málið. „Það væru hæg heimatökin með það. Það er hins vegar eðlilegt að þarna er verið að láta á það reyna hvernig íslensk lagaákvæði eru túlkuð og hvort það sé ekki með sama hætti og í nágrannalöndunum okkar eða hvort það þurfi að bæta íslenska laga- rammann til að við séum á sama stað,“ segir Ari.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér.