Fasteignafélagið City Center Properties, sem er að stærstum hluta í íslenskri eigu, hefur keypt átta stórar fasteignir í Noregi af norska fasteignafélaginu BSA Kontoreiendom að því er kemur fram í tilkynningu. Um er að ræða sex skrifstofubyggingar og tvær byggingar sem hýsa bæði skrifstofur og vörugeymslur, alls 67 þúsund fermetrar. Sjö bygginganna eru í Osló og ein í Bergen.

Eignir City Center Properties eru metnar á, á annan tug milljarða íslenskra króna og með kaupunum hefur félagið skipað sér í hóp 20 stærstu fasteignafyrirtækja Noregs.

Fjögur félög eiga hlut í fasteignafélaginu City Center Properties, þar af þrjú í eigu Íslendinga; Isthar, félag í eigu Róberts Melax sem á 40% eignarhlut; Saga Capital Fjárfestingarbanki sem á 20%; og KEA sem á 10%. Að auki á norska félagið Auris Holdings 30% eignarhlut. Tveir bankar; Glitnir og Bnbank í Osló fjármögnuðu viðskiptin.

David Ball, stjórnarformaður City Center Properties segir í tilkynningu að félagið ætli að styrkja stöðu sína á fasteignamarkaðinum í Evrópu á næstunni. ,,Við stefnum að því að tvöfalda eignir félagsins á næstu tveimur árum og erum að skoða fasteignir víðs vegar um Evrópu,? segir David.