Verði selt inn á vinsæla ferðamannastaði þá myndi ekki verða farið í manngreinarálit og Íslendingar rukkaðir til jafns við erlenda ferðamenn. Þetta fullyrðir Þórir N. Kjartansson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Víkurprjóns í Vík í Mýrdal.

Hann skrifar grein í Sunnlenska fréttablaðið og tekur sem dæmi að á einni dagleið af hópi erlendra ferðamanna frá Hótel Hvolsvelli að Freysnesi í Öræfum þyrfti ef rukkað væri inn á ferðamannastaði að hafa ellefu til tólf gjaldhlið. Þau væru við Seljalandsfoss, Þorvaldseyri, Skógafoss, Sólheimajökul, , Dyrhólaey, Reynisfjöru, Víkurfjöru, Hjörleifshöfða, Fjarðrárgljúfur, á kirkjugólfinu á Klaustri, við Svartafoss og/eða Svínafellsjökul.

Þá segir Þórir ýmsu haldið á lofti sem ekki fáist staðist í umræðu um ferðaþjónustuna. Þar á meðal að arður af erlendum ferðamönnum lendi allur hjá rútufyrirtækjum í Reykjavík. Þórir bendir á að í sumum sveitarfélögum á Suðurlandi er ferðaiðnaðurinn orðinn mikilvægasta atvinnugreinin. Fasteignagjöld af hótelum og veitingastöðum ásamt útsvarstekjum er orðinn verulegur liður í tekjum sunnlenskra sveitarfélaga, sérstaklega á austur helmingi svæðisins.