Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, reiknar með því að fyrirtækinu verði lagðar til 40 milljónir dala á ári, jafnvirði fimm milljarða króna. Féð á að nýta til að fjármagna rannsóknir og til kaupa á ýmsum tækjum. Kári býst við því að þetta verði gert næstu tíu árin og að fyrirtækið verði mjög stór innflytjandi á erlendum gjaldeyri, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins kom Íslensk erfðagreining með 580 milljónir króna í gegnum fjárfestingarleið Seðlabankans í febrúar með útgáfu skuldabréfs. Í fyrra fór fyrirtækið fjárfestingarleiðina tvisvar og kom með 5,5 milljarða króna til landsins.

Bandaríska lyfjafyrirtækið Amgen keypti Íslenska erfðagreiningu rétt fyrir síðustu jól á 415 milljónir dala, jafnvirði rúmra 50 milljarða íslenskra króna.