Ofát truflar heilt kerfi erfðaefnis (DNA) í líkamanum, sem veldur ekki aðeins offitu heldur einnig sykursýki og hjartasjúkdómum, en þó þannig að hugsanlega má spá fyrir um sjúkdómana, að því er rannsóknarhópur á vegum Merck-rannsóknarstofunnar í Bandaríkjunum segir í grein í vísindaritinu Nature.

Hópurinn notaði við rannsóknir sínar gögn frá Íslenskri erfðagreiningu, 1000 blóðsýni og um 700 sýni úr fituvefjum, sem tekin voru úr íslenskum sjálfboðaliðum.

Samkvæmt fréttavef Reuters þróuðu vísindamennirnir nýja aðferð við að greina erfðaefni og notuðu hana til að uppgötva að offita er mun flóknara fyrirbæri en menn gerðu sér áður grein fyrir.

„Sjúkdómurinn offita er ekki afleiðing af einni breytingu á tilteknu geni, heldur breytir það heilu kerfi,” sagði Eric Schadt, stjórnandi genarannsókna á Merck-rannsóknarstofnuninni, en hún er rannsóknar- og þróunardeild Merck & Co. lyfjarisans. Rannsóknarstofnunin hefur yfir 10 þúsund starfsmenn og um 20 starfsstöðvar víðs vegar um heiminn. Helsta markmið þeirra er að beita nýjustu rannsóknum við þróun áður óþekktra lyfja og bóluefna.

Starfsmenn stofnunarinnar báru músum mjög fituríkan mat og rannsökuðu þær í kjölfarið.  Báru þeir kennsl á kerfi sem innihéldu mörg hundruð gena sem virtust fara á skakk og skjön þegar mataræðið var svo feitt. „Þetta kerfi verður fyrir gríðarlegum áhrifum af fituríkum mat,” sagði Schadt.

Mögulegt að þróa lyf

Eftir að þessar niðurstöður fengust sneri rannsóknarhópurinn sér til Íslenskrar erfðagreiningar og fengu aðgang að gagnabanka fyrirtækisins, sem leiddi í ljós að sama kerfi er að finna í fólki. Hópurinn gerði nákvæma rannsókn á 1.000 blóðsýnum og nær 700 fitusýnum, sem tekin höfðu verið úr íslenskum sjálfboðaliðum.

Niðurstöðurnar leiddu í ljós að í fólki sem hefur mikinn fitumassa er að finna einkennandi ummerki genabreytinga í fituvefjum sem ekki var að finna í erfðaefni sem tekið var úr blóðinu.

„Þetta sýnir að hinar venjulegu birtingamyndir þessara sjúkdóma eru afar flókin,” sagði Schadt. „Einföld erfðapróf geta ekki greint þessi kerfi.”

Hann kvaðst vona að rannsóknarhópurinn gæti rannsakað nánar umrædd kerfi og einangrað þau gen sem líklegust eru til að valda sjúkdómum. Mögulegt væri að þróa lyf sem brugðist gætu við þessum frávikum í erfðaefninu.