„Við urðum ekkert vör við þetta," segir Kjartan Magnússon, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, sem var í borginni Sanaa í Jemen um helgina, ásamt íslenskri sendinefnd úr orkugeiranum. Að minnsta kosti þremur eldflaugum var seint í gærkvöld skotið á húsakynni vesturlandabúa í borginni. Talið er að al-Qaeda tengist árásinni en engan sakaði.

„Ég frétti þetta fyrst er ég sá CNN á hótelinu."

Kjartan segir að í Jemen hafi verið undirrituð viljayfirlýsing af hálfu forsvarsmanna Reykjavík Energy Invest og jemenskra stjórnvalda um frekari viðræður um samstarf á sviði jarðhitamála. Yfirlýsingin feli ekki í sér neinar fjárhagslegar skuldbindingar.

Með Kjartani í för eru meðal annars Guðmundur Þóroddsson, forstjóri REI, og Ásta Þorleifsdóttir, varaformaður stjórnar OR. Auk þess er Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra með í för.

Hópurinn heldur til Djíbútí í dag og fer þaðan til Eþíópíu.