Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað íslenska ríkið af kröfum Hafnarfjarðarbæjar í máli bæjarins gegn íslenska ríkinu. Bærinn krafðist þess að fá felldan úr gildi úrskurð ríkisskattstjóra frá 22. mars 2011 eða fá honum breytt að hluta.

Ágreiningurinn laut að skattlagningu hagnaðar af sölu hlutabréfa bæjarins í Hitaveitum Suðurnesja hf.  til Orkuveitu Reykjavíkur en bærinn telur að skattlagningin brjóti gegn jafnræðisreglu stjórnarskráarinnar. Krafðist Hafnarfjörður þess að úrskurður ríkisskattstjóra í mars 2011 í skattamáli Hafnarfjarðar vegna gjaldársins 2010 yrði felldur úr gildi og fjármagnstekjuskattstofn lækkaður um 5,5 milljarða króna.

Til stóð að aðalmeðferð málsins færi fram í febrúar 2013 en var frestað fram í október 2013. Málið var hins vegar endurupptekið 13. febrúar 2014, eftir að nýjum dómara hafði verið falin meðferð þess.

Í tilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ kemur fram að ekki liggur fyrir hvort að Hafnarfjarðarbær áfrýi málinu  til Hæstaréttar.