Kristinn Már Gunnarsson kaupsýslumaður hefur náð gífurlegum árangri á erfiðum Þýskalandsmarkaði sem og víðar undanfarin ár. Hann hefur nú sagt skilið við daglegan rekstur í fyrirtækjum sínum og einbeitir sér að ástríðuverkefnum á borð við Cintamani.

Hvaða verkefnum ertu að sinna hér á landi um þessar mundir?

„Hér heima er ég aðeins að sinna Cintamani en sú ákvörðun tengdist auknum áherslum mínum og áhuga á útivist og heilbrigðum lífsstíl. Ég átti áður umtalsvert safn af fasteignum hér á landi en ég ákvað hins vegar að selja það allt fyrir nokkru síðan. Ég er búinn að einfalda umhverfi mitt mikið að undanförnu og búinn að selja út allt sem ég hef ekki áhuga á að gera þannig að um þessar mundir er ég bara að sjá um það sem ég get staðið 100% á bak við.“

Hvernig kom það til að þú ákvaðst að fjárfesta í Cintamani?

„Saga Cintamani er nokkuð flókin en fyrirtækið byrjaði sem einskonar „Arctic project“ árið 1989 og það var í raun Fold á Akureyri sem stofnaði Cintamani og framleiddi í stórri fataverksmiðju á Akureyri, allt þar til fyrirtækið hætti starfsemi. Skúli Björnsson, sem þá átti stærstu heildsölu landsins, Sportís, keypti síðan Cintamani og gerði það að undirmerki Sportís. Það var í raun Skúli og dóttir hans, Elva Rós, sem lögðu grunninn að Cintamani þannig að úr varð alvöru heildsala og vinsælt vörumerki á uppgangsárunum 2002-2006 .

Síðar meir fór Skúli svo í samstarf við góðan vin sinn, Sindra Sindrason, sem kom með mikla og nauðsynlega viðskiptareynslu inn í fyrirtækið með það fyrir augum að gera merkið alþjóðlegt og koma því upp á næsta stig. Ég kom svo inn í fyrirtækið gegnum hann. Þeir voru orðnir þreyttir á rekstrinum og smám saman keypti ég Cintamani af Sportís og endaði svo á að eiga 100% af fyrirtækinu árið 2012.“

Vildi gera Cintamani að útflutningsfyrirtæki

Var upphaflega markmiðið þá að hefja útflutning á Cintamani-vörum?

„Þegar ég keypti mig inn í fyrirtækið árið 2011 var markmið mitt að fjárfesta í íslensku fyrirtæki og gera það að almennilegu útflutningsfyrirtæki. Strax og ég tók við byrjuðum við að selja mikið út enda gat ég nýtt mér góð sambönd bæði á Þýskalands- og Bretlandsmarkaði. Við seldum töluvert mikið út árið 2011 og 2012 en erum núna búin að breyta um stefnu. Við getum bara stækkað ákveðið mikið út af sjóðstreymi en ég vil ekki taka lán fyrir stækkun og set fyrirtæki mín þannig upp að allir hlutir sem ég á eru skuldlausir.

Hlutir sem ég kaupi eru því aldrei skuldsettir og auk þess reyni ég að taka sem minnst rekstrarlán. Þess vegna er efnahagsreikningurinn okkar mjög góðurog miðað við veltustærð eru rekstrarlánin mjög lítil. En þetta veldur því hins vegar að við getum ekki stækkað jafn hratt. Velta Cintamani á Íslandsmarkaði hefur aukist úr 450 milljónum í 900 milljónir frá árinu 2011, sem er töluvert. Heildsölukerfið sem þarf til að hægt sé að selja almennilega erlendis var ekki til í fyrirtækinu og þess vegna tók ég ákvörðun um að hætta nánast öllum útflutningi þangað til að þetta er komið í lag og einbeita okkur á meðan að íslenska markaðnum. Markaðurinn hérna heima er náttúrlega sérstaklega áhugaverður um þessar mundir og við eigum nóg inni. Það eru til að mynda allt í einu að minnsta kosti sprottnir upp 50 nýir staðir alls staðar um landið þar sem Cintamani getur sett upp aukahlutastanda og túristar koma í hrönnum og kaupa föt.“

Íslenskar veltutölur eins og lygasaga

Aðspurður segist Kristinn ekki hafa mikla skoðun á komu H&M til landsins. „Þetta er bara frábært fyrirtæki en bæði H&M og Zara eru fyrirtæki sem hafa algerlega náð að mastera ferlið allt frá framleiðslu til sölu og staðsetningu og svo framvegis. Það hefur verið mjög gaman að fá að fylgjast með þeim í gegnum árin. Mér finnst í raun mjög skrítið að bæði þeir og aðrir séu ekki löngu komnir til Íslands. Ég held reyndar að ástæðan fyrir því að margir séu ekki komnir hingað sé að það trúði aldrei neinn höfðatölunni og síðan veltunni hér á Íslandi. Fólk hélt einfaldlega að veltutölurnar sem Coca-Cola og ýmis alþjóðleg vörumerki voru að ná á Íslandi væri lygasaga. Ég man eftir því að þær sem voru með Vera Moda á Íslandi í gamla daga voru ekki bara söluhæstar í heiminum, þær voru langsöluhæstar. Þær seldu svo mikið meira en búð númer tvö á listanum að það var eins og þetta væri talnavilla. Ég hef oft velt því fyrir mér hver sé ástæðan fyrir þessu. Við erum náttúrlega bara neysluþjóð. En sem betur fer því ef við værum ekki svona þá myndi þetta þjóðfélag ekki virka. En svo verðum við líka að hafa það í huga að á Íslandi er brjálæðislega duglegt fólk. Við erum vinnusöm og ástríðufull í því sem erum að gera – við lifum því sem við erum að gera.“

Viðtalið má lesa í heild sinni í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.