Íslenskur fjárfestahópur hefur undanfarið verið að safna hlutabréfum í bresku verslunarkeðjunni Marks & Spencer Group Plc. Þetta kemur fram í frétt í breska blaðinu Guardian í morgun.

Þar kemur fram að þessi óþekkti hluthafahópur mun innan nokkurra daga greina frá því að hafa keypt 3% í fyrirtækinu fyrir 170 milljónir punda eða um 20 milljarða króna. Blaðið tiltók ekki hvaðan það hefði heimildir sínar.

Samkvæmt frétt blaðsins hófst söfnun bréfanna 6. júní síðastliðin. Engin hjá Marks & Spencer vildi tjá sig um málið við blaðið. Blaðið hefur þó eftir ónefndum talsmanni M&S að félagið hafi engar upplýsingar um slíka söfnun hlutafjársins en það kæmi þó ekki alveg á óvart. "Við teljum að bréf félagsins séu undirverðlögð miðað við hina miklu veltu félagsins," hefur blaðið eftir þessum talsmanni.

Marks & Spencer er stærsti fatasali Bretlands en félagið greindi frá 19% samdrætti í hagnaði í síðasta mánuði. Um leið var greint frá því að það væri að tapa markaðshlutdeild.

Fyrir ári síðan tók Stuart Rose við stjórn félagsins og stýrði hann vörn þess gegn fjandsamlegri yfirtöku breska fjárfestisins Phillip Green. Rose hefur játað að afkoma félagsins valdi vonbrigðum.