Þrír íslenskir matreiðslumeistarar, þeir Gissur Guðmundsson, Hillmar B. Jónsson og Helgi Einarsson, sækjast eftir endurkjöri í stjórn Heimssamtaka matreiðslumanna ( World Associations of Chefs Societies, WACS). Fjögurra manna framkvæmdastjórn samtakanna hefur frá árinu 2008 verið skipuð meisturunum þremur auk þess sem framkvæmdastjóri samtakanna er Ragnar Friðriksson. Gissur er forseti samtakanna, Hilmar B. varaforseti og Helgi er ritari samtakanna.

Kjörtímabili núverandi stjórnar lýkur á næsta ári og segir í tilkynningu að þegar hafi verið lagt hart að íslenska teyminu að gefa kost á sér að nýju. Næsta kjörtímabil stendur frá 2012 til 2016. Íslenska teymið segir mikilvægt að stjórnvöld, Samtök ferðaþjónustunnar og aðrir hagsmunaaðilar veiti því öflugan stuðninga á næsta heimsþingi WACS sem fer fram í Suður-Kóreu á næsta ári.

Í WACS eru um 10 milljónir matreiðslumanna í tæplega 100 aðildarfélögum um allan heim, að því er kemur fram í tilkynningu. Þar segir ennfremur:

„Meðal verkefna sem núverandi stjórn hefur komið til leiðar má nefna stofnun félags innan WACS sem heitir Matreiðslumeistarar án landamæra . Það hefur að markmiði að útvega og senda næringarrík matvæli og hreint vatn til hamfarasvæða og landa þar sem hungursneyð ríkir. Gissur Guðmundsson segir að náttúruhamfarin á undanförnum misserum, svo sem á Haiti og í Japan sýni glögglega hve brýnt sé að útvega bágstöddum fljótt næringarríkan mat og hreint vatn. Hann segir samtökin vilja leggja sitt af mörkum á þessu sviði og það sé hlutverk hins nýja félags WACS.

Norræn matargerð

Meginmarkmiðin með stjórnasetu Íslendinga í WACS er að styrkja og efla samtökin enn frekar í alþjóðlegu ljósi. Gissur segir að það felist m.a. í því að efla og treysta ímynd norrænnar matargerðar og ekki síst orðspor íslenskra matreiðslumeistara og alþjóðlega ásjónu Íslands. Gissur segir að í þeirri vinnu þurfi WACS á stuðningi íslenskra hagsmunaaðila að halda, ekki síst stjórnvalda, fyrirtækja og hagsmunasamtaka á sviði ferðamála. „Það er lagt hart að okkur að gefa kost á okkur aftur á næsta kjörtímabili, 2012 til 2016, en næsta þing WACS fer fram í Suður-Kóreu árið 2012. Ef okkur á að takast að vinna okkar málum frekara brautargengi þurfum við á öflugum stuðningi að halda,“ segir Gissur.

Um WACS

Heimssamtök matreiðslumanna voru stofnuð árið 1928 í Sorbonne í París. Þau þykja virtustu hagsmunasamtök matreiðslumanna á alþjóðlegum vettvangi og njóta virðingar sem mikilvægt áhrifaafl á vöxt og viðgang ferðaþjónustunnar í heiminum. Þau hafa á undanförnum árum lagt vaxandi áherslu á umhverfismál, sjálfbæra og næringarríka matvælaframleiðslu og bætta og hagsýnni nýtingu hráefna og mætvæla.“