Nýbirtar niðurstöður rannsókna íslenskra vísindamanna benda til að íslenskir skógar bindi meira kolefni en talið hefur verið fram að þessu. Alcoa Fjarðaál og Skógrækt ríkisins hafa gert með sér samning um áframhaldandi rannsóknir á kolefnisbindingu í Vallanesi á Fljótsdalshéraði.

Skógrækt ríkisins hefur um nokkurra ára skeið staðið fyrir umfangsmiklum rannsóknum til að áætla kolefnisbindingu með skógrækt á landsvísu. Rannsóknastöð skógræktar á Mógilsá hóf beinar mælingar á flæði kolefnis yfir ungum lerkiskógi í Vallanesi haustið 2003, en lerki er lykiltrjátegund á Austurlandi.

Rannsóknirnar eru hluti af doktorsverkefni Brynhildar Bjarnadóttur við háskólann í Lundi í Svíþjóð. Niðurstöður fyrir árið 2005 voru birtar í erlendu vísindatímariti nýlega. Helstu niðurstöður voru þær að hver fermetri af skógi batt 727 g af koltvísýringi á ári. Þetta er meiri árleg kolefnisbinding en notuð hefur verið fram að þessu í spám um kolefnisbindingu með nýskógrækt (624 g CO 2 / m 2 á ári). Einungis reyndist hægt að útskýra 12% af mældri heildarkolefnisbindingu skógarins með bindingu í trjám og botngróðri. Vísindamenn telja því mikilvægt að vinna að frekari rannsóknum á kolefnisbindingu í jarðvegi skógræktarsvæða.

Alcoa Fjarðaál og Skógrækt ríkisins hafa gert með sér samkomulag um að Alcoa Fjarðaál styrki áframhaldandi rannsóknir á kolefnisbindingu í Vallanesi næstu tvö árin, með tíu milljóna króna fjárframlagi. Rannsóknirnar munu meðal annars styðja við útreikninga á kolefnisbindingu í þeim umhverfisverkefnum sem Alcoa er nú þegar þátttakandi í, hér á landi og erlendis. Má þar nefna áætlanir um að planta tíu milljón trjám um allan heim og Loftslagsverkefni Landverndar.

Tómas Sigurðsson, forstjóri Alcoa Fjarðaáls sagði við undirskrift samningsins: „Árið 1990 setti fyrirtækið sér það markmið að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um fjórðung fram til ársins 2010.  Þessu markmiði náði fyrirtækið árið 2003, þrátt fyrir að álframleiðsla hafi aukist á sama tíma. Alcoa í Bandaríkjunum hefur meðal annars  beitt sér fyrir því, að gerð verði raunhæf áætlun um hvernig dregið verði úr losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum. Rannsóknir eru nauðsynlegar til að af því geti orðið  og rannsóknir Skógræktarinnar falla vel að metnaðarfullri umhverfisstefnu Alcoa Fjarðaáls.”

Jón Loftsson, skógræktarstjóri sagði við þetta tækifæri: „Það er mikils virði að stórt fyrirtæki á borð við Alcoa sé meðvitað um ábyrgð sína í umhverfismálum og tilbúið til að leggja okkur lið í rannsóknum og aðgerðum á á sviði loftslagsmála. Eitt hlutverk Skógræktarinnar er að meta hversu mikið kolefni íslensk skógrækt getur bundið, meðal annars vegna svokallaðs kolefnisbókhalds sem öll aðildarríki Kyoto- samningsins þurfa að skila á ári hverju. Þessi samningur mun meðal annars hjálpa okkur að uppfylla þær skyldur okkar.”