*

þriðjudagur, 26. október 2021
Innlent 7. desember 2015 09:49

Íslenskt sprotafyrirtæki gefur út forritunarleik

Meðlimir Radiant Games kynna forritunarleikinn Box Island í NASDAQ kauphöllinni í New York og í Hvíta Húsinu í Washington D.C.

Ritstjórn
Stofnendur Radiant Games
Haraldur Guðjónsson

Íslenska sprotafyrirtækið Radiant Games hefur nú gefið út forritunarleik sinn Box Island: Epic Coding Adventure. Leikurinn er hannaður til að auðvelda krökkum að beita grunngildum forritunar og efla rökfræðilegan hugsunarhátt. Box Island var upphaflega gefinn út fyrir iPad spjaldtölvur hér á landi fyrr í haust og fékk mjög góðar viðtökur. Leikurinn er fyrsti íslenski forritunarleikurinn fyrir snjalltæki.

Meðlimir Radiant Games munu kynna Box Island í NASDAQ kauphöllinni í New York og í Hvíta Húsinu í Washington D.C. í tilefni af viku tölvunarfræðinnar (e. Computer Science Education Week) sem stendur nú yfir. Stofnendur fyrirtækisins eru Guðmundur Valur Viðarsson, Haukur Steinn Logason, Vignir Örn Guðmundsson og Þorgeir Auðunn Karlsson, en Radiant Games var stofnað í maí 2014 og hófst vinna við leikinn um það leyti.

“Það ættu allir að hafa sömu tækifæri til að fá skemmtilega kynningu á forritun og tölvunarfræði. Við vorum mjög drifnir af því að koma til móts við þá sýn þegar við hönnuðum Box Island upplifunina og erum stoltir af útkomunni,” segir Haukur Steinn Logason, verkefnastjóri hjá Radiant Games.

Styðja við fjölgun stúlkna í Tölvunarfræði

Leikurinn var frá upphafi hannaður til að henta bæði stelpum og strákum á grunnskólaaldri en fjölgun kvenna í Tölvunarfræði er mikilvægt málefni sem Radiant Games vildi styðja með Box Island.

Stikkorð: Radiant Games