Heimsmarkaðsverð á áli virðist lítið ætla að hækka og er nú um 1.350 dollarar á tonnið. Stóru álfyrirtækin halda því áfram áætlunum við að loka óhagkvæmari verksmiðjum á meðan íslensku álverin ganga á fullum dampi.

Örlítil uppsveifla varð á álverði fyrstu tíu dögum mánaðarins þegar verðið komst í um 1.420 dollara á tonnið eftir að hafa farið niður fyrir 1.300 dollara þann 26. janúar.

Engin teikn virðast vera á lofti að mati sérfræðinga um að álverð hækki að ráði á næstunni. Hafa álfyrirtækin því verið að loka óhagkvæmustu álverum sínu til að mæta minnkandi eftirspurn.

Álfyrirtækin sem reka verksmiðjur á Íslandi, hafa samt ekki séð sér hag í að draga úr framleiðslunni hérlendis. Þvert á móti vinnur t.d. RioTinto Alcan nú að miklum endurbótum á álveri sínu í Straumsvík og enn er unnið að byggingu á nýju álveri Norðuráls – Century Aluminum í Helguvík þrátt fyrir erfiðleika við fjármögnun þess. Þá er álver Alcoa í Reyðarfirði rekið með fullum afköstum enda talið eitt það fullkomnasta og hagkvæmasta í heimi.

Century Aluminum kynnti sem dæmi í byrjun febrúar að haldið yrði áfram við að keyra niður álver fyrirtækisins í Ravenswood Vestur Virginíu í Bandaríkjunum þar sem 679 manns hafa verið við störf. Það álver var gangsett árið 1957 og getur framleitt 180.000 tonn af áli á ári. Gert er ráð fyrir að lokið verði við að skrúfa fyrir framleiðslu allra kerja álversins á föstudag. Verksmiðjustjórinn Jim Chapman segir þetta hafa verið erfiða ákvörðun, enda sé álverið búið að vera styrk stoð í efnahagslífi Vestur Virginíu í meira en 50 ár.