Íslensku bankarnir koma vel út í V/H samanburði enda standa væntingar til þess að bankarnir sýni góða afkomu á árinu, að sögn greiningardeildar Glitnis sem segir að algengast sé að nota kennitölurnar V/H og V/I í samanburði á verðmæti banka.

V/H ber saman markaðsverðmæti fyrirtækis (V) og hagnað (H) en V/I ber saman markaðsverðmæti (V) og bókfært eigið fé (I).

Meðfylgjandi gröf sem greiningardeild Glitnis gerði sýna þessar kennitölur fyrir ýmsa banka, íslenska og erlenda.

?Samanburðurinn sýnir að íslensku bankarnir hafa hæstu V/I hlutföllin að UBS og Carnegie undanskildum. Há V/I hlutföll bankanna helgast af hárri arðsemi eigin fjár en fjárfestar eru að öllu jöfnu reiðubúnir að greiða hærra verð samkvæmt þessum mælikvarða eftir því sem arðsemi eigin fjár er hærri," segir greiningardeildin.

V/H gildin eru reiknuð miðað við spár um hagnað þessa árs en ekki hagnað síðasta árs eða síðustu tólf mánaða, eins og einnig er algengt að gera.

Gögnin fyrir erlendu bankana eru frá gagnaveitunni Bloomberg en fyrir Landsbanka og Kaupþing er miðað við nýlega uppfærð verðmöt en afkomuspá Straums-Burðaráss frá því í apríl.

Ekki er reiknað vænt V/H fyrir Glitni banka þar sem greiningardeild Glitnis spáir ekki fyrir um afkomu bankans á árinu 2006. Myndirnar sýna 5 hæstu og lægstu kennitölugildin í samanburði bankanna.

"Í því samhengi er rétt að benda á nýleg verðmöt Greiningar á Landsbanka og Kaupþingi banka. Lækkun gengis krónunnar, hátt verðbólgustig og mikil viðskipti í Kauphöll Íslands munu styðja við góða afkomu bankanna til skamms tíma litið. Til skamms tíma má einnig búast við að ávöxtun hlutabréfasafna bankanna muni hafa mest áhrif á afkomu þeirra. Þá hefur umtalsverð verðlækkun á bréfum í bönkunum síðustu mánuði þau áhrif að V/H hlutfallið lækkar," segir greiningardeildin.