Gunnar Guðmundsson, sem áður var aðstoðarframkvæmdastjóri Nýfisks í Sandgerði, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri yfir starfsemi Aker Seafood í Hammerfest og tók hann til starfa í byrjun mánaðarins, að því er fram kemur í Fiskaren.

Aker Seafood, sem er eitt stærsta sjávarútvegsfyrirtæki Noregs, er í eigu Kjell Inge Rökke.

Haft er eftir Gunnari í blaðinu að honum lítist mjög vel á fyrirtækið og hann sagði að það hefði góðu starfsfólki á að skipa.

Fiskaren segir að Gunnar gæti þurft að nota nokkur „íslensk trikk”, eins og það er orðað, til að efla fiskvinnsluna í Hammerfest sem legið hefur niðri vegna erfiðleika mikinn hluta ársins.

Gunnar hefur starfað í sjávarútvegi og fiskvinnslu frá árinu 1991, þar af var hann sjö ár við störf í Grænlandi. Hann var formaður SFÚ, Samtaka framleiðenda og útflytjenda, 2007-2008.