Vegagerðin hefur samið við Ístak hf. um að ljúka þeirri tvöföldun Reykjanesbrautar sem Jarðvélar sögðu sig frá í desember.

Vegagerðin hefur þar með hafnað tilboði lægstbjóðendanna Adakris uab / Topp verktaka ehf. í verkið, en Ístak átti annað lægsta tilboðið í útboði sem opnað var 8. apríl sl.

Í tilkynningu frá Vegagerðinni segir að eftir að tilboðin höfðu verið yfirfarin og leiðrétt eftir því sem við átti hafi komið í ljós að verktakinn Adakris uab / Topp verktaka ehf. uppfyllti ekki kröfur Vegagerðarinnar og því ekki unnt að semja við hann.

Um er að ræða kaflann frá Strandarheiði að Njarðvík ásamt frágangi við vegamót Vogavegar, Grindavíkurvegar, Stapahverfis og Njarðvíkurvegar með tilheyrandi römpum, hringtorgum og þvervegum. Útboðskaflinn skal vera opinn almennri umferð, á báðum akbrautum, frá 16. október 2008. Verkinu öllu skal að fullu lokið fyrir 1. júní 2009.

Áætlaður verktakakostnaður Vegagerðarinnar var 770 milljónir króna.  Tilboð voru opnuð 8. apríl 2008 og voru þau sem hér segir í röð eftir upphæðum:

  1. Adakris uab. / Toppverktakar ehf. buðu  698.800.000 krónur eða  90,8% af kostnaðaráætlun.
  2. Ístak hf. bauð  807.129.603 krónur eða 104,8% af kostnaðaráætlun.
  3. Háfell ehf. bauð  841.841.841 krónur eða 109,3% af kostnaðaráætlun.
  4. Loftorka ehf og Suðurverk hf. bauð 847.279.900 krónur eða 110,0% af kostnaðaráætlun.
  5. Glaumur og Árni Helgason buðu 917.768.100 krónur eða 119,2% af kostnaðaráætlun.
  6. Íslenskir aðalverktakar hf. buðu 955.144.000 krónur eða 124,0% af kostnaðaráætlun.
  7. Malbikunarstöðin Hlaðbær-Colas hf. bauð 969.476.470 krónur, eða 125,9% af kostnaðaráætlun.

Vegagerði hóf strax við ræður við Adakris uab. / Toppverktaka ehf. en óskaði jafnframt eftir viðbótargögnum frá Ístaki ehf.

Tilboð Toppverktaka vakti töluverða athygli í þessum geira, þar sem um er að ræða ungt fyrirtæki sem ekki hefur starfað á þessum vettvangi. Þeir hafa einkum starfað við uppsetningu á gips milliveggjum og kerfisloftum sem og í málningarvinnu.

Samstarfsaðilinn Adakris uab. frá Litháen mun hins vegar hafa starfað í mannvirkjagerð og gatnagerð hjá sveitarfélögum í Litháen.

Ístak er á hinn bóginn mjög vel þekkt í vegagerð og öðrum verklegum framkvæmdum á Íslandi og hefur m.a. gert fjölda jarðganga bæði hérlendis og erlendis.