Ítalski bankinn BPER hefur hafið innleiðingu á lausnum íslenska hugbúnaðarfyrirtækisins Meniga. Innleiðingin mun gera bankanum kleift að bjóða viðskiptavinum sínum persónulegri notendaupplifun í gegnum snjallsíma- og netbankalausnir bankans.

Viðskiptavinir munu geta einfaldað og haldið betur utan um heimilisfjármálin sín með því að fá persónulega yfirsýn og tilkynningar frá Meniga kerfinu. Hátt í milljón viðskiptavinir munu hafa aðgang að lausnum Meniga.

„Bankar þurfa nú meira en nokkru sinni fyrr að hugsa fram á veginn og bjóða viðskiptavinum sínum betri þjónustu í gegnum stafrænt umhverfi. Samstarf okkar við BPER undirstrikar stefnu Meniga að vinna með bönkum um allan heim við að bjóða persónulegri notendaupplifun og hjálpa viðskiptavinum að halda betur utan um fjármálin sín.“ segir Georg Lúðvíksson, forstjóri og meðstofnandi Meniga.

Meniga er nú þegar í samstarfi við tvo stærstu banka Ítalíu; Intesa Sanpaolo og Unicredit samstæðunni sem tilkynnt var um í byrjun júní.