Já, sem rekur upplýsingaþjónustuna 118, annast ritstjórn og útgáfu Símaskrárinnar og rekstur vefsvæðisins simaskra.is, hefur gert samning um kaup á fyrirtækinu Spurl ehf. sem sérhæfir sig í leitartækni á Netinu. Kaupsamningurinn er gerður með fyrirvara um áreiðanleikakönnun.

Í tilkynningu vegna kaupanna kemur fram að Spurl var stofnað af Hjálmari Gíslasyni og Frosta Sigurjónssyni í apríl 2004 um bókamerkjaþjónustuna spurl.net sem er persónuleg og ókeypis leitarvél á Netinu. Leitarvélin býður notendum að merkja sín uppáhaldsvefsvæði og leita að upplýsingum eingöngu á þessum merktu svæðum. Notendur spurl.net týna ekki áhugaverðum vefsíðum og fá auk þess ábendingar um fleiri vefsíður í gegnum meðmæli eða vinsældalista.

Spurl hefur einnig tekið þátt í einstökum þróunarverkefnum en fyrirtækið var fyrst til þess að búa til leitartækni sem ?kann íslensku? í samvinnu við Orðabók Háskólans. Sú leitartækni er meðal annars í notkun á vefleitarvélinni Emblu á mbl.is og nýjum og endurbættum Símaskrárvef Já sem fór í loftið nýlega.

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Já, segir kaupin samræmast kjarnanum í markaðsstefnu Já að bjóða hraða og áreiðanlega upplýsingaþjónustu sem mætir þörfum viðskiptavina auk þess að vera fyrsta val þegar fólk vantar upplýsingar í dagsins önn. ?Framtíð Já byggist að töluverðu leyti á því hvernig fyrirtækinu tekst að hasla sér völl á Netinu og þessi kaup eru mikilvægt skref á þeirri leið," sagir Sigríður í tilkynningunni.

Sigríður segir ávinning Já af kaupunum þríþættan. Í fyrsta lagi bjóðist ný viðskiptatækifæri innanlands. Já stefnir að því að halda á lofti því góða starfi sem Spurl hefur sinnt hingað til og verður fyrirtækjum áfram boðin leit á vefsvæðum sínum með leitartækni Spurl. Í öðru lagi bjóðast ný viðskiptatækifæri erlendis þar sem Spurl mun halda áfram samstarfi við erlend fyrirtæki með stuðningi Já. Loks liggur beint við að útvíkka upplýsinga- og leitarþjónustu Já sem Íslendingar eru vanir að nota til þess að afla sér ýmissa upplýsinga.