SMS skeyti sem send eru af Já.is munu héðan í frá kosta á bilinu 6 til 8 krónur. Hingað til hafa skeytin verið ókeypis en þeim hafa fylgt auglýsingar. Í tikynningu frá Já.is segir að í kjölfar þess að Póst- og fjarskiptastofnun hafi bent á að móttakandi þurfi að veita samþykki fyrir auglýsingu, hafi verið ákveðið að rukka fyrir send sms af netinu.

„Við vildum finna leið til að þurfa ekki hætta að bjóða SMS-sendingar af Já.is þegar þessi ábending Póst- og fjarskiptastofnunar barst. Við ákváðum frekar að líta á þetta sem tækifæri og höfum því unnið að því að geta áfram veitt þessa þjónustu þó með breyttum og vonandi bættum hætti sé,“ segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, forstjóri Já í tilkynningu. „SMS-sendingar af netinu verða nú auðkenndar, þeim verður hægt að svara og farsímanotendur allra stærstu símafyrirtækjanna munu geta nýtt þessa þjónustu.“