Breski bílaframleiðandinn Jaguar hefur innkallað 18 þúsund bíla af gerðinni Jaguar X-type vegna galla í svokallaðri hraðastillingu (e. cruise control).

Í frétt BBC kemur fram að bílarnir voru framleiddir á árunum 2006 – 2010.

Vandamál sem komið hafa tengjast því að ekki er hægt að slökkva á hraðastillingunni. Í bréfi sem viðskiptavinir og eigendur Jaguar X-type hafa fengið sent kemur fram að eftir tilvikum sé ekki hægt að slökkva á hraðastillingunni fyrr en slökkt hefur verið á vél bílsins.

Þetta hefur þó enn ekki valdið slysum þar sem ökumönnum hefur tekist að hægja á bifreiðum sínum og bremsubúnaður virkað. Allar venjulegar hraðastillingar fara úr sambandi um leið og ökumenn ýta á bremsuna eða slökkva á henni handvirkt. Þegar ökumaður hefur hægt á sér með því að ýta á bremsuna þarf hann að kveikja aftur á hraðastillingunni til að halda ákveðnum hraða.