Jakob Óskar Sigurðsson hefur verið ráðinn forstjóri SÍF og tekur hann til starfa í mánuðinum. Örn Viðar Skúlason, sem gegnt hefur starfi forstjóra SÍF undanfarna mánuði, tekur við sínu fyrra starfi sem aðstoðarforstjóri félagsins segir í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar.

Jakob hefur mikla reynslu af stjórnun og starfi á alþjóðlegum mörkuðum. Hann hefur starfað hjá hinu alþjóðlega fyrirtæki Rohm and Haas frá 1995, lengst af í Þýskalandi. Frá árinu 2003 hefur Jakob verið framkvæmdastjóri Rohm and Haas í Evrópu, Miðausturlöndum og Afríku og verið ábyrgur fyrir starfsemi sex efnaverksmiðja í Evrópu.


Rohm and Haas er leiðandi í heiminum í framleiðslu vatnsborinna akrýlefna fyrir byggingariðnað, pappírsiðnað, leðuriðnað og alls kyns límframleiðslu. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Philadelphiuríki í Bandaríkjunum. Ársvelta félagsins er um 500 milljarðar íslenskra króna og hjá því vinna um 17 þúsund manns um heim allan.

Jakob Óskar Sigurðsson er fæddur í Vestmannaeyjum 28. mars 1964. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1984 og útskrifaðist með B.S.-gráðu í efnafræði frá Háskóla Íslands 1989. Árin 1989-1993 starfaði hann sem efnafræðingur og síðar tæknilegur þjónustustjóri hjá málningarverksmiðju Slippfélagsins í Reykjavík.

Jakob hélt til náms við Northwestern University í Bandaríkjunum 1993 og útskrifaðist þaðan 1995 með MBA-gráðu í fjármálastjórn, markaðsmálum og alþjóðaviðskiptum. Hann hóf störf hjá Rohm and Haas Deutschland GmbH 1995, fyrst sem markaðsstjóri málningarvara í Evrópu og síðar á heimsvísu. Árið 1998-1999 stjórnaði Jakob framleiðsluferli efnaverksmiðja fyrirtækisins í Evrópu og innleiddi þar ný ferli. Árin 1999-2002 var hann framkvæmdastjóri vöruþróunar í aðalstöðvum Rohm and Haas í Philadelphiu en árið 2002 lá leiðin aftur til Þýskalands þar sem Jakob starfaði sem markaðsstjóri fyrir Evrópu, Miðausturlönd og Afríku og síðar framkvæmdastjóri fyrir sama svæði.

Jakob er mörgum að góðu kunnur sem fyrirliði Vals og íslenska landsliðsins í handknattleik en hann lék með liðinu sem sigraði á B-heimsmeistaramótinu í París 1989 og tók þátt í Ólympíuleikunum 1984, 1988 og 1992.

Eiginkona Jakobs er Fjóla Sigurðardóttir, tölvunarfræðingur, og eiga þau 3 börn.