Fjallað eru um tilboð Nasdaq í OMX kauphöllina í leiðara Wall Street Journal í gær. Fram kemur að þrátt fyrir að ekki sé hægt bera kaup á norrænu kauphöllinni saman við kaup á Kauphöllinni í London, sem Nasdaq hefur tvisvar borið víurnar í, þá séu þau engu að síður skynsamleg. Með þeim fái bandaríska kauphöllin aðgang að Evrópumarkaði og bent er á að hátæknifyrirtæki eins Nokia séu skráð á OMX , en Nasdaq hefur sérhæft sig í slíkum félögum. Einnig er bent á að kauphallirnar í Hong Kong og Singapúr noti sama hugbúnað og markaðsaðilar OMX. Slíkt kunni að skipta máli haldi samþjöppun meðal kauphalla áfram. Jafnfram er bent á að ef af kaupunum verði þá muni Nasdaq/OMX verða þriðja stærsta kauphöllin sem starfar yfir Atlantsála.

Líkur eru leiddar að því að Nasdaq muni aftur gera tilboð í Kauphöllina í London en hinsvegar gætu forráðamenn hennar leitað í austurveg eftir samstarfi og sameiningum sé hald þeirra að þungamiðja alþjóðlegra verðbréfaviðskipta færist frá New York til Asíu.

Fullyrt er í leiðaranum að fjárfestar og fyrirtæki hagnist mjög af þeirri samþjöppun sem hefur átt sér stað meðal kauphalla og að áframhaldandi alþjóðavæðing verðbréfaviðskipta blasi við.