Samkvæmt stefnu í lánamálum ríkisins 2017 til 2021 hefur ríkissjóður Íslands heimild til að gefa út vaxtaskiptasamninga á innlendum fjármálamarkaði fyrir allt að 20-40 milljarða króna á ári. Að sögn Björgvins Sighvatssonar, forstöðumanns Lánamála ríkisins hjá Seðlabanka Íslands, koma vaxtaskiptasamningar ríkissjóðs til með að hafa víðtæk jákvæð áhrif á innlendum fjármálamarkaði.

Vaxtaskiptasamningarnir munu lækka vaxtakostnað ríkissjóðs til lengri tíma litið og minnka meðallíftíma lánasafns ríkissjóðs. Þeir munu einnig hjálpa fjárstýringu íslensku bankanna með því að gera þeim kleift að stýra vaxtaáhættu á efnahagsreikningi sínum. Bankarnir fjármagna sig með innlánum, sem eru í eðli sínu lán á breytilegum vöxtum, og hafa hag í því að eiga einnig eignir með breytilegum vöxtum til að minnka vaxtamuninn á eignum og skuldum og draga úr áhættu.

Þett gerir bönkunum einnig kleift að lána einstaklingum og fyrirtækjum óverðtryggt til langs tíma, sem þeir hafa ekki getað gert hingað til þó svo að þeir hafi verið að gefa út sértryggð skuldabréf. Kerfislegt vægi verðtryggingar á langtímalánum myndi því minnka, og fjölbreytni í framboði á fjármögnun til einstaklinga og fyrirtækja aukast.

Einnig gætu samningarnir bætt miðlunarferli peningastefnunnar. Eftir því sem markaðurinn með vaxtaskiptasamninga byggist upp á nýjan leik færist meira líf í peningamarkaðinn (sem og aðra markaði fyrir fjármálagerninga á borð við framvirka samninga) og á stutta endann á vaxtarófinu, en sá endi hefur verið fremur þunnur á Íslandi. Vaxtaskiptasamningarnir gætu einnig byggt upp eingreiðsluferil.

Björgvin segir að það eigi eftir að ákveða hvaða breytilegi leggur, sem ríkið greiðir, verði notaður í vaxtaskiptasamningunum, en að hann velti í raun á viðmiðinu. Það gæti t.d. verið 3-mánaða REIBOR vextir, dagvextir, hlaupandi millibankavextir, stýrivextir eða innlánsvextir Seðlabankans.

Áhugi meðal markaðsaðila

Björgvin segir ákvörðun um útgáfu vaxtaskiptasamninga ávallt taka mið af markaðsaðstæðum hverju sinni.

„Við höfum þessa heimild, en þurfum ekki að nýta hana. Þetta er eitt tæki í vopnabúrinu til að stýra vaxtaáhættu,“ segir Björgvin. „Lögun vaxtarófsins ræður mjög miklu um markaðsáhuga á vaxtaskiptasamningum, því minni áhugi er hjá ríki að gera slíka samninga ef ferillinn er niðurhallandi frekar en upphallandi.“

Samkvæmt stefnunni í lánamálum ríkisins hafa innlendir markaðsaðilar sýnt því nokkurn áhuga að ríkissjóður taki frumkvæði við útgáfu vaxtaskiptasamninga.

„Við höfum átt fundi með öllum bönkunum og þeir hafa tekið mjög vel í þetta, vegna þess að þetta tæki hjálpar þeim í fjárstýringu. Þetta hefur verið lengi í undirbúningi, en hvað framkvæmdina varðar er þetta allt saman á byrjunarstigi,“ segir Björgvin. „Það þarf að huga að mörgum þáttum í þessu máli - útfærslu, tryggingum, hvaða ber að varast og fleira. Við gefum okkur góðan tíma í þetta og komum til með að byggja á reynslu nágrannaríkja okkar í þessu máli.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .