Íslensk erfðagreining skýrði í dag frá helstu niðurstöðum úr fyrsta fasa lyfjaprófana á DG041, tilraunalyfi sem beint er gegn æðakölkun í fótleggjum eða svokölluðum útæðasjúkdómi. Reiknað er með að annar fasi prófana á lyfinu hefjist í sumar segir í frétt fyrirtækisins.

Alls hafa 196 heilbrigðir einstaklingar tekið þátt í prófunum á lyfinu og hafa þeir tekið allt að 1600 milligrömm af lyfinu á dag í sjö daga. Helstu niðurstöður lyfjaprófananna voru:

Engar alvarlegar aukaverkanir komu fram og þátttakendur virtust þola vel allar skammtastærðir lyfsins segir í frétt ÍE.

Niðurstöðurnar gefa til kynna að DG041 hamli samloðun blóðflagna og að þau áhrif séu í hlutfalli við skammtastærð. Einnig tókst að finna þann skammt lyfsins sem þarf til að ná hámarksáhrifum.

Áhrif á blæðingartíma

Samkvæmt niðurstöðum prófananna virðist lyfið hvorki hafa áhrif á blæðingartíma né almenna starfsemi blóðflagna, aðra en viðloðun.

?Það er mikil þörf fyrir nýtt lyf sem hindrar samloðun blóðflagna án þess að auka hættu á blæðingum. Við erum mjög ánægð með þessar niðurstöður og spennt fyrir því að hefja næsta fasa í sumar. Ég er sérstaklega stoltur af vísindamönnum okkar í lyfjaefnafræðideildinni í Chicago sem þróuðu nýtt og betra lyfjaform til að auka styrk lyfsins í líkamanum á aðeins nokkrum vikum. Við höfum sennilega verið helmingi fljótari en almennt gerist innan lyfjaiðnaðarins að fara frá grunnuppgötvun á líffræðilegum orsökum sjúkdóms, sem í okkar tilfelli fólst í einangrun meingens, og í gegnum þennan fyrsta fasa lyfjaprófana," sagði Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar í tilkynningu félagsins.

Útæðasjúkdómur hrjáir um 10% fullorðinna í vestrænum löndum og yfir 20% þeirra sem komnir eru yfir sjötugt. Sjúkdómurinn lýsir sér í því að æðar þrengjast vegna myndunar æðaskellna og blóðstreymi til handa og fóta minnkar. Helstu einkenni sjúkdómsins er tímabundinn sársauki í fótum við göngu eða æfingar eru. Ef sjúkdómurinn gengur svo langt að æð stíflast getur það leitt til dreps í útlimum. Engin lyfjameðferð er þekkt sem hefur áhrif á líffræðilegar orsakir sjúkdómsins eða kemur í veg fyrir framþróun hans.

DG041 er nýtt tilraunalyf sem þróað hefur verið af vísindamönnum Íslenskrar erfðagreiningar og vonast er til að geti bætt úr brýnni þörf á nýjum meðferðarúrræðum við útæðasjúkdómi. DG041 er fyrsta lyfið sem hefur verið þróað út frá niðurstöðum erfðarannsókna á algengum sjúkdómi og fyrsta lyfið sem vísindamenn Íslenskrar erfðagreiningar hafa þróað frá grunni. DG041 er lítil lyfjasameind af nýjum lyfjaflokki og er ætlað til inntöku í töfluformi. Forklínískar rannsóknir hafa sýnt að lyfið hindrar starfsemi EP3-viðtaka boðefnisins prostaglandíns E2 og kemur í veg fyrir samloðun blóðflagna af völdum þess.