Japanska hagkerfið er nú tæknilega í niðursveiflu, en skilgreiningin á niðursveiflu er þegar samdráttur hefur verið í hagkerfinu tvo ársfjórðunga í röð.

Verg landsframleiðsla í Japan dróst saman um 3,5% á ársgrundvelli á þriðja ársfjórðungi, samkvæmt tölum japanska ríkisins. Þá voru hagvaxtartölur fyrir annan ársfjórðung leiðréttar og sýna þær nú að 0,1% samdráttur var í landsframleiðslu á tímabilinu.

Kosið verður til japanska þingsins þann 16. desember næstkomandi. Frjálslyndi demókrataflokkurinn leiðir í skoðanakönnunum og hefur Shinzo Abe, leiðtogi flokksins, heitið því að auka ríkisútgjöld og slaka á peningastefnunni til að koma hjólum hagkerfisins aftur af stað. Greiningardeildir banka eins og Citigroup spá því að samdráttur verði á fjórða ársfjórðungi þessa árs.