Sendiráð Íslands í Tókýó efndi nýlega til kynningarfundar, í samvinnu við Íslenska verslunarráðið í Japan og Fjárfestingarstofu, um kosti Íslands að því er varðar beinar erlendar fjárfestingar.Fulltrúar níu japanskra stórfyrirtækja sóttu fundinn og sýndu kynningunni mikinn áhuga segir í Stiklum, vefriti viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins.

Þórður Hilmarsson, framkvæmdastjóri Fjárfestingarstofu, flutti erindi og fór ítarlega yfir helstu aflvaka beinna erlendra fjárfestinga á Íslandi. Áður gaf Benedikt Höskuldsson, sendifulltrúi sendiráðsins, yfirlit um stöðu erlendra
fjárfestinga í orkufrekum iðnaði.

Fulltrúar níu japanskra stórfyrirtækja sóttu fundinn og sýndu kynningunni mikinn áhuga. Fulltrúarnir spurðu margvíslegra spurninga um hugsanlega stöðu japanskra fyrirtækja á Íslandi. Fram kom að brýnt er að japönsk stjórnvöld fáist til þess að semja við íslensk stjórnvöld um gerð tvísköttunarsamnings, en Japan er eitt fárra ríkja innan OECD sem Ísland hefur ekki gert slíkan samning við. Frá því að íslenska sendiráðið í Tókýó var opnað, í október 2001, hefur verið þrýst á japönsk stjórnvöld um gerð tvísköttunarsamnings.

Í tengslum við 50 ára afmæli stjórnmálasambands milli Íslands og Japans í ár er nú kannað hvort hægt verði að efna til sérstaks kynningarfundar fyrir lykilfyrirtæki í Japan um kosti þess að staðsetja eignarhaldsfélög á Íslandi segir í Stiklum.