Jarðböðin við Mývatn verða formlega opnuð á morgun. Þar með verður að veruleika margra ára gamall draumur félagsmanna í Baðfélagi Mývatnssveitar sem stendur að baki framkvæmdunum en félagið er nú formlegt hlutafélag með rúmlega 70 hluthafa. Stærstu hluthafar eru Iðnaðarráðuneytið, Byggðastofnun og KEA svf. með samanlagt um 75% hlutafjár. Auk þess hefur Landsvirkjun stutt dyggilega við verkefnið og fleiri fyrirtæki og einstaklingar lagt því lið.

Með Jarðböðunum við Mývatn er ætlunin að viðhalda aldagamalli hefð fyrir böðum í Mývatnssveit, auka fjölbreytni í afþreyingu fyrir ferðamenn, styrkja atvinnulíf á svæðinu og opna nýja möguleika í heilsutengdri ferðaþjónustu. Böðin eru staðsett við Jarðbaðshóla á jaðri háhitasvæðisins í Bjarnarflagi um 4 km. frá Mývatni.

Skóflustungu að böðunum tók Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, þann 16. október sl. og hafa framkvæmdir staðið síðan. Jarðböðin eru við svokallaða Jarðbaðshóla og eiga böð sér langa forsögu á þessum stað. Eitt af því sem gerir þessi mannvirki einstök í sinni röð er hin holla gufa í gufuböðunum sem stígur beint upp úr jarðsprungum. Slíkt er einstakt á heimsvísu.

Á staðnum hafa m.a. verið byggð móttökuhús, snyrtingar, gufuböð, heitir pottar og loks baðlónin sjálf, sem samtals eru um 5000 fermetrar að stærð. Kostnaður er áætlaður nokkuð á annað hundrað milljónir króna.