Jarðboranir hf. hafa stofnað dótturfyrirtækið Hekla Energy GmbH í Þýskalandi og verða höfuðstöðvar nýja fyrirtækisins í Celle í Neðra-Saxlandi. Í frétt Atorku, móðurfélags Jarðboranna, til Kauphallarinnar kemur fram að stofnun Hekla Energy er liður í að framfylgja stóraukinni áherslu Atorku og Jarðborana á útrás sérhæfðrar þekkingar á erlenda markaði. Í verkahring Hekla Energy GmbH verða borframkvæmdir í Þýskalandi.

Nýlega var samið við þýska fyrirtækið Herrenknecht Vertical GmbH um kaup og kauprétt á nýrri gerð hátæknivæddra stórbora sem eru sérstaklega hannaðir til að afla jarðhita á miklu dýpi. Fyrsti borinn verður afhentur Hekla Energy nú í september og þegar uppsetningu, prófunum tækjabúnaðar og öðrum undirbúningi lýkur er fyrirhugað að fyrstu borframkvæmdir á vegum Hekla Energy hefjist í Suður-Þýskalandi. Mikil vakning er um nýtingu umhverfisvænnar orku í heiminum og beinist athyglin æ meir að jarðvarma. Vænleg sóknarfæri eru fyrir Hekla Energy í Þýsklandi og víðar og standa viðræður yfir um frekari verkefni.


Thor Növig hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Hekla Energy GmbH frá og með 1. september n.k. Növig hefur 30 ára reynslu á sviði boriðnaðar. Hann er með B.Sc. gráðu í vélaverkfræði frá Tækniháskólanum - NTH í Niðarósi, Noregi, og M.Sc. gráðu í jarðolíuverkfræði frá Tækniháskólanum í Clausthal í Þýskalandi og var aðstoðarprófessor við Tækniháskólanum í Clausthal. Növig hefur veitt þýska fyrirtækinu ITAG Tiefbohr GmbH forystu í alls 15 ár og undir hans stjórn hefur fyrirtækið skipað sér í fremstu röð borverktaka í Evrópu í krafti frumkvæðis í borhönnun og mikillar áherslu á gæði.

Að mati Bents S. Einarssonar, forstjóra Jarðborana, er Növig rétti maðurinn til að veita Hekla Energy forystu. ?Það er mikill happafengur að fá Növig í okkar raðir og við lítum á tilkomu hans sem mikilvægt skref í uppbyggingu á  starfseminni ytra. Növig er mjög virtur maður á sínu sviði, yfirburða þekking hans, reynsla og stjórnunarhæfni réðu úrslitum um ráðninguna.?


Növig hlakkar til að takast á við nýja starfið að því er kemur fram í tilkynningu. ?Sem sérþekkingarfyrirtæki á sviði jarðvarma mun Hekla Energy gegna mikilvægu hlutverki innan evrópsks boriðnaðar í náinni framtíð. Ég hef miklar væntingar varðandi framtíðarsýn  fyrirtækisins og starf mitt. Hekla Energy hefur mjög álitlega vaxtarmöguleika og að baki býr metnaður til að verða í forystu meðal borverktaka á sviði jarðvarma og skyldra verkefna. Öflug sérþekking og fjárhagsleg geta Jarðborana  til að fjárfesta í nýjustu tækni mun skipta sköpum um vöxt Hekla Energy á hinum ört stækkandi markaði fyrir nýja og endurnýjanlega orku.?

Jarðboranir eru í eigu Atorku Group. Jarðboranir eru þekkingar- og hátæknifyrirtæki sem annast framkvæmdir á alþjóðlegum vettvangi og felst starfsemin einkum í nýtingu auðlinda í jörð til framleiðslu á endurnýjanlegri
orku. Jarðboranir eru jafnframt stærsta borfyrirtæki á heimsvísu sem sérhæfir sig í jarðhita.


Atorka Group er fjárfestingarfélag sem er skráð í OMX Nordic Exchange á Íslandi. Atorka fjárfestir í traustum fyrirtækjum sem eru í atvinnugreinum sem hafa sérstök tækifæri til vaxtar á heimsmarkaði. Í fjárfestingum sínum leggur Atorka áherslu á að rekstur fyrirtækjanna sé öflugur með sterkt sjóðstreymi, sterkt stjórnendateymi, starfi við góð skilyrði til verulegs innri og ytri vaxtar og hafi tækifæri til verðmætaaukningar.