Bláa lónið og aðrir svipaðir baðstaðir, eins og Jarðböðin við Mývatn og Fontana á Laugarvatni, eru undanþegin virðisaukaskatti. Óskar H. Albertsson, skrifstofustjóri hjá Ríkisskattstjóra, staðfestir þetta í samtali við Viðskiptablaðið. Baðstaðirnir eru undanþegnirskattinum á þeirri forsendu að þeir séu sundstaðir og þannig hefur það verið frá því að lögin tóku gildi fyrir 25 árum. Nokkur munur er hins vegar á verðskrá sundlauga annars vegar og baðstaða eins og Bláa lónsins, Jarðbaðanna við Mývatn og Fontana á Laugarvatni hins vegar. Sem dæmi kostar 600 krónur í Laugardalslaugina en 6.200 krónur í Bláa lónið yfir sumartímann. Í Jarðböðin kostar 3.500 krónur og 3.200 krónur í Fontana. Jarðböðin eru svipuð Bláa lóninu, en þar er heitt vatn úr Bjarnarflagi notað í baðlónið. Fontana sker sig hins vegar úr að því leyti að þar er ekkert baðlón heldur laugar, gufa og sauna.

Hugsanlega breytt

Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá stendur nú yfir endurskoðun á virðisaukaskattslögunum og skipaði fjármálaráðherra sérstakan stýrihóp í byrjun ársins sem hefur það hlutverk að koma með tillögur að breytingum. Á meðal þess sem hópurinn er að skoða er að fækka undanþágum fyrir aðila í ferðaþjónustu. Guðrún Þorleifsdóttir lögfræðingur er formaður hópsins.