Fyrirtækið Jarðböðin hf., sem rekur jarðböðin Mývatnssveit, hagnaðist um 302 milljónir króna á síðasta ári. Vöxturinn hefur verið mikill því árið 2015 hagnaðist félagið um 196 milljónir og árið 2014 nam hagnaðurinn 110 milljónum. Framkvæmdir standa nú yfir á svæðinu og þá eru uppi áform um að byggja nýtt baðhús á lóð félagsins til þess mæta auknum gestafjölda.

Guðmundur Þór Birgisson, framkvæmdastjóri Jarðbaðanna, segir að í fyrra hafi 202 þúsund baðgestir sótt Jarðböðin heim samanborið við um 150 þúsund árið 2015.

„Síðasta rekstrarár gekk alveg ljómandi vel," segir Guðmundur Þór. "Það varð gríðarleg aukning í gestafjölda en þrátt fyrir það þá gekk allt upp. Við við höfðum gert áætlanir sem miðuðu við þetta allt saman og vorum því vel undirbúin fyrir þessa miklu aukningu. Árið 2016 vorum við 16 manns í vinnu allt árið en um sumarið fjölguðum við í 30."

Guðmundur Þór segir að reksturinn á þessu ári hafi gengið vel. Sérstaklega á fyrri hluta ársins.

„Það varð aukning hjá okkur fyrstu 5 mánuði ársins en síðan hægði aðeins. Sumarið hefur verið svipað og það var í fyrra — kannski örlítil aukning. Miðað við bókanir þá sé ég fram á aukningu núna aftur í haust. Ég tel því að við munum skila góðum hagnaði eftir þetta ár og meiri en í fyrra."

Landsvirkjun á hlut

Eignarhald Jarðbaðanna hf. er nokkuð dreift. Stærsti hluthafinn er Tækifæri hf., sem á tæplega 41% en það félag er í meirihlutaeigu KEA. svf. Íslenskar heilsulindir hf. eiga ríflega 23% hlut en það félag er alfarið í eigu Bláa lónsins hf. Nokkra athygli vekur að Landsvirkjun á tæplega 18% hlut í Jarðböðunum en á meðal minni hluthafa eru Landeigendur Voga ehf.  með tæplega 7% hlut og Skútustaðahreppur á tæplega 6%.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .