Hagnaður Coca-Cola samsteypunnar nam 1,9 milljörðum dala á fyrsta ársfjórðungi 2011. Hann var örlítið minni en markaðsaðilar spáðu en ástæðuna má helst rekja til minnkandi tekna í Japan. Líkt og hjá fleiri fyrirtækjum dróst framleiðsla saman í kjölfar jarðskjálftans og flóðbylgju þar í landi þann 11. mars síðastliðinn.

Félagið birti uppgjör sitt í dag. Sala jókst í Bandaríkjunum og Kanda, fjórða ársfjórðunginn í röð. Fyrir ári síðan hafði sala dregist stanslaust saman frá árinu 2007, að því er fram kemur í frétt Bloomberg. Á alþjóðavísu jókst sala um 6%. Aukningin var mest í Kína, þar neyttu landsmenn um 14% meira af vörum Coca-Cola en þeir gerðu fyrir ári síðan.