Jarðhitaleitarátak á köldum svæðum veitti styrk til jarðhitaleitar á Djúpavogi. Er nú borun rannsóknarholu í gangi og var hún orðin rúmlega 200 metra djúp þann 9. janúar síðastliðin samkvæmt upplýsingum sem fengust á heimasíðu Orkustofnunar.

Þar kemur fram að þær vísbendingar sem þegar liggja fyrir eru jákvæðar og í næsta áfanga er því áætlað að halda áfram með þessa holu og bora niður á allt að 600 metra dýpi. Þetta er svipuð aðferðafræði og beitt hefur verið annarsstaðar á Austurlandi m.a. á Eskifirði. Þar hefur verið leitast við að sjá í ?ódýrum" rannsóknarholum hvort til staðar er nýtanlegt vatn til hitaveitu áður en lagt er í boranir sem kostað geta tugi milljóna.

Jarðhitaleit skapar miklar væntingar um bættan hag íbúanna á þeim stöðum þar sem leitað er og krefst leitin að sjálfsögðu mikillar þekkingar og reynslu bæði þeirra sem framkvæma sjálfa borunina og ekki síður þeirra jarðvísindamanna sem að verkinu koma.