Ætla má að um 800 þúsund tonn af olíu þyrfti til að kynda hýbýli Íslendinga. Þess í stað höfum við jarðhitann og spörum á því 50 milljarða króna á ári í olíuinnflutningi. Þetta sparar okkur jafnframt brennslu 2,5 milljón tonna af CO2 á ári, en ætla má að innan skamms gæti losunarkvóti þess magns kostað um 9 milljarða króna á heimsmarkaði. Jarðhitinn sparar Íslendingum því 50 til 60 milljarða króna á ári, sem ella færu í innflutning á oliu og – innan skamms - í kaup á losunarkvóta. Þetta kom fram í erindi Sigurðar Inga Friðleifssonar, framkvæmdastjóra Orkuseturs, á aðalfundi Samorku.

Sigurður fjallaði um afar sérstaka stöðu Íslands hvað varðar græna orkuframleiðslu (með vatnsafli og jarðhita) og lagði áherslu á að afrakstur auðlindarinnar rennur til almennings. Þannig kostar rúmlega 60 þúsund krónur að kynda meðalíbúð í Reykjavík, en í höfuðborgum hinna Norðurlandanna myndi sama kynding kosta á bilinu 390 til 550 þúsund krónur á ári, eða sex til níu sinnum meira.

Raforka til heimila fjórfalt dýrari í Danmörku

Raforkuverð til almennings er að sama skapi mun lægra hérlendis en í samanburðarlöndum, t.d. um fjórðungur af verðinu í Danmörku og rúmur þriðjungur af verðinu í Svíþjóð. Ólíkt samanburðarlöndunum hefur raforkuverð til heimila farið jafnt og þétt lækkandi hér í rúman áratug, að teknu tilliti til þróunar vísitölu neysluverðs. Sigurður sagði það stærðfræðilega ómögulegt að þau 20% raforkunnar sem færu á almennan markað gætu verið að greiða niður þau 80% orkunnar sem fara til stóriðju, eins og stundum er haldið fram.