Forsetaframboð repúblikanans Jeb Bush safnaði 11,4 milljónum dollara á öðrum ársfjórðungi þessa árs og hefur stuðningshópur (e. Super PAC) hans safnað yfir 103 milljónum dollara á fyrstu sex mánuðum þessa árs. Washington Post greinir frá þessu.

Þar segir að stuðningshópur hans hafi nú úr um 98 milljónum bandaríkjadollara að spila en í hópnum eru 9.900 manns skráðir en af þeim eru 9.400 sem hafa lagt fram minna en 25.000 dollara.

Frá því að Bush tilkynnti um framboð sitt fyrir um tveimur vikum síðan hefur hann safnað að meðaltali um 760.000 dollurum á dag. Enginn annar frambjóðandi hefur náð jafn háu meðaltali frá kynningu framboðs. Næst á eftir Bush er Hillary Clinton með tæplega 570.000 dollara á dag að jafnaði frá því hún kynnti framboð sitt.

Jeb Bush tilkynnti um framboð sitt 15. júní síðastliðinn en hann var áður ríkisstjóri í Flórída. Hann er bróðir George W. Bush og sonur George Bush sem báðir gegndu embætti forseta Bandaríkjanna.