*

þriðjudagur, 28. september 2021
Fólk 6. september 2021 10:02

Jóhann leiðir sölu og þróun á Caren

Jóhann Tómas Guðmundsson hefur verið ráðinn til að leiða sölu og þróun á bílaleigulausninni Caren frá Origo.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Jóhann Tómas Guðmundsson hefur verið ráðinn til Sprotaþróunar Origo en hann mun þar sjá um að leiða sölu og þróun á Caren bílaleigulausninni. Caren aðstoðar bílaleigur að hámarka flotanýtingu og hafa umsjón með heildarferli rekstursins. Caren er mest notaða bílaleigukerfið á Íslandi, að því er kemur fram í fréttatilkynningu.

Jóhann hefur starfað áður að verðstýringu hjá bílaleigum eins og Avis, Budget og Bílaleigu Reykjavíkur. Þar áður starfaði Jóhann sem rekstrarstjóri sprotafyrirtækisins Ghostlamp. Þá hefur hann einnig unnið sem verkefnastjóri hjá Amazon í Þýskalandi að umbótarverkefni tengt bestun stærðar á pakkningum. Jóhann lauk MBA gráðu frá ESADE Business School í Barcelona og BSc. gráðu í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík.

„Það er algjör draumur fyrir einstakling með reynslu úr sprotageiranum annars vegar og bílaleigubransanum hins vegar að vinna við Caren bílaleigulausnina. Caren er í rauninni 10 ára gamalt sprotafyrirtæki sem er þó mest notaða bílaleigukerfi landsins. Þá hafa margar íslenskar bíla- og húsbílaleigur starfað með okkur og veitt ómetanlega aðstoð í að þróa lausnina í þá átt sem hentar markaðinum. Við erum með ótrúlega öflugt teymi, en búum einnig svo vel að því að auðvelt er að sækja frekari sérfræðiaðstoð hjá starfsfólki Origo,“ segir Jóhann.

„Ég er gífurlega spenntur fyrir því að leiða Caren teymið og halda áfram að vinna með okkar íslensku samstarfsaðilum og þróa kerfið okkar enn frekar. Einnig eru spennandi viðbætur framundan eins og sjálfsafgreiðslu- og pappírslausar lausnir ásamt háþróuðu leiðsögukerfi fyrir ferðamenn. Íslenski bílaleigumarkaðurinn er auðvitað sá stærsti í heiminum miðað við höfðatölu en Caren lausnin hentar öllum bílaleigum, óháð stærð, hvar sem er í heiminum og tækifærin því nánast óendanleg,“ segir Jóhann ennfremur.