Heildverslunin Jóhann Ólafsson & Co heldur upp á 100 ára afmæli sitt í dag, en fyrirtækið var stofnað af Jóhanni Ólafssyni 14. október árið 1916 og er því eitt elsta fyrirtæki landsins eins og segir í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.

Barnabarnið situr við stjórnvölinn

„Jóhann var forstjóri allt til dauðadags þar til hann féll frá árið 1963 en þá tók sonur hans, Jóhann J. Ólafsson við rekstrinum. Í dag situr barnabarn Jóhanns við stjórnvölinn, Jón Árni Jóhannsson,“ segir í fréttatilkynningunni.

„Fyrirtækið haslaði sér strax völl á sviði innflutnings, heildsöludreifingar og smásölu. Fyrirtækið var hið fyrsta hér á landi sem hóf bein viðskipti við Japan á árinu 1931.“

Fjöldi heimsþekktra vörumerkja

Félagið hefur á þessum hundrað árum kynnt Íslendingum fyrir fjölda heimsþekktra vörumerkja, líkt og General Motors, Good Year, Dunlop, Du Pont, Gillette, OSRAM, Villeroy & Boch, Zanussi, WMF, Yale og Black & Decker, en félagið rak um árabil verslunina Vileroy & Boch.

„Ennfremur hefur fyritækið komið við sögu prentiðnaðarins á Íslandi og var fyrst til að kynna ljósnæmar prentplötur. Hvítlist hefur verið í meirihlutaeigu félagsins frá árinu 2000 en það sérhæfir sig í að þjónusta prentiðnaðinn,“ segir í fréttatilkynningu, en fyrirtækið hefur selt vörur OSRAM frá árinu 1948 á Íslandi.

„Frá árinu 2009 hefur Jóhann Ólafsson & Co lagt megináherslu á vörur og lausnir tengdum ljósum og lýsingu. Fyrirtækið er núna leiðandi aðili í sölu og þjónustu á lýsingarbúnaði frá OSRAM, SITECO, Traxon, Danlamp, Bailey og fleiri aðilum.“

Lýsa upp Hörpu, friðarsúluna og íshelli

Sér félagið um lýsingu á fjölmörgum þekktum byggingum á Íslandi með vistvænum ljósaperum frá OSRAM, eins og Hörpu, friðarsúlu John Lennon og Yoko Ono í Viðey og svo hefur félagið komið að verkefnum eins og lýsingu í íshellinum í Langjökli.

„Það er ánægjulegt að fagna svona stórum tímamótum í rekstri félagsins. Félagið er sannkallað fjölskyldufyrirtæki og hefur verið farsælt þar sem það hefur mótast með breytingum í samfélaginu á þessum 100 árum sem það hefur verið starfrækt. Ég lít björtum augum til framtíðarinnar og hlakka til að hefja 101 rekstrarár fyrirtækisins,“ segir Jón Árni Jóhannsson framkvæmdastjóri, í fréttatilkynningunni.